Vegáætlun 1995--1998

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 17:29:13 (6468)

1996-05-22 17:29:13# 120. lþ. 145.9 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[17:29]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 8. þm. Reykv. að sem betur fer árar þannig að það er útlit fyrir einhverja tekjuaukningu hjá ríkissjóði, það er ljóst. En það er jafnljóst að fjárlögin eru með einhverjum veikleikum og það er ætíð svo að það þarf að endurmeta fjárþörf á árinu með fjáraukalögum. Það er ljóst að það verður einhver útgjaldaauki af þeim sökum í ýmsum erfiðum málaflokkum þó að ég ætli ekki að fara að ræða það nánar í andsvari.

[17:30]

Við vitum að varðandi sjúkrahúsarekstur og fleira eru vissir veikleikar í fjárlögum og staðreyndin er sú að fjárlög voru gerð með 4 milljarða kr. halla. Þetta er nefnt til þess að draga upp heildarmyndina af þessu máli. Ég held því að allur sé varinn góður í þessu þó sem betur fer ári þannig að efnahagslífið er í vissri uppsveiflu og ríkissjóður fær auknar tekjur af þeim sökum. Það er náttúrlega grundvallaratriðið. Það er grundvallaratriðið undir því að við getum sinnt ýmsum góðum málum sem við berum fyrir brjósti, vegamálum og öðrum velferðarmálum sem ég vil kalla svo.