Vegáætlun 1995--1998

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 17:31:22 (6469)

1996-05-22 17:31:22# 120. lþ. 145.9 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[17:31]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Framkvæmdaátakið í vegamálum var ákveðið m.a. vegna ástandsins í atvinnumálum. Þegar þær ákvarðanir voru teknar var það mikið áherslumál af hálfu verkalýðshreyfingarinnar.

Ástandið í atvinnumálum hefur að ýmsu leyti batnað. En þó voru þær tölur sem birtust um atvinnuleysið í aprílmánuði fyrir nokkru ekkert sérstaklega jákvæðar. Ég bendi á að þegar dregið er úr atvinnuframkvæmd eins og gert hafði verið ráð fyrir í Reykjavík í þessu máli hefur það keðjuverkandi áhrif, ekki síst núna þegar um það er að ræða að þúsundir og aftur þúsundir ungmenna eru að koma út á vinnumarkaðinn og það verður erfiðara að fá venjulega launavinnu í Reykjavík í sumar en verið hefur um mjög langt skeið.

Ég ætla líka að segja það að ég tel að ef fjárln. og samgn. hefðu séð þegar þær gengu frá fjárlögunum fram úr því hvaða áhrif niðurskurðurinn hefði á þessa tilteknu framkvæmd og hefðu líka vitað að staða ríkissjóðs mundi fara eins og hún er að fara þá hefðu menn staðið að því að framkvæmdin hefði verið tekin í einni lotu. Ég er alveg sannfærður um það og þess vegna tel ég mig vera í fullum rétti og okkur til þess að flytja þá tillögu sem við höfum mælt fyrir um leið og ég þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni fyrir að hafa tekið þátt í umræðunni því að mér finnst sjónarmið hans út af fyrir sig réttlætanleg en ég bið hann engu að síður að skoða hug sinn í smáatriðum áður en til atkvæðagreiðslu kemur.