Vegáætlun 1995--1998

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 17:33:20 (6470)

1996-05-22 17:33:20# 120. lþ. 145.9 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[17:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir allt af því sem hv. 8. þm. Reykv. sagði áðan. Það er rétt sem hann segir. Þetta er ekki kjördæmamál því að innkeyrslan í höfuðborg allra landsmanna er hagsmunamál okkar allra og hvernig þar er staðið að málum.

Vegna orða hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns fjárln., þar sem hann minntist á fjárlagahallann og sjúkrahúsin, vil ég benda á að í því landi sem þessi ríkisstjórn hefur svolítið sótt tillögur sínar til, þ.e. á Nýja-Sjálandi, þá er það hluti af forgangsröðun í heilbrigðismálum að standa vel að slysavörnum. Það er þriðja aðalverkefnið í forgangsröðun í heilbrigðismálum næstu fimm árin hjá þeim á Nýja-Sjálandi. Það væri ekki óeðlilegt að menn settu viðbótarfé sem kemur í ríkissjóð í það að flýta framkvæmdinni í Ártúnsbrekku sem mun ef allt verður að óbreyttu verða hættulegt umferðinni, ekki kannski keyrslan niður Ártúnsbrekkuna eins og hv. þm. Svavar Gestsson minntist á, heldur keyrslan inn á Ártúnsbrekkuna og Miklubrautina.

Hv. þm. Jón Kristjánsson talar um að tekjustofninn sé sveiflukenndur. Ég minni á að ákvarðanir hv. stjórnarþingmanna eru líka sveiflukenndar. Það voru settar 800 millj. meira í vegáætlun fyrir kosningar. Þeim var kippt í burtu um það bil ári síðar. Það eru líka miklar sveiflur. (JónK: Það var önnur ríkisstjórn.) Já, það var önnur ríkisstjórn, það er alveg rétt hjá hv. þm. En engu að síður eru minni sveiflur á bensínverði en ákvörðunum stjórnarþingmanna og ég minni á kosningaloforð Sjálfstfl. um það og þar með Davíðs Oddssonar að ekki yrði skorið niður af vegafé. Svona er staðið við það.