Atvinnuúrræði fyrir atvinnulaust fólk

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 17:36:42 (6471)

1996-05-22 17:36:42# 120. lþ. 145.11 fundur 411. mál: #A atvinnuúrræði fyrir atvinnulaust fólk# frv., Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[17:36]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka fram hvað mér finnst mikils virði að fá tækifæri til að mæla fyrir þessu mikilvæga frv. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að umræða um það hefði farið fram við aðrar aðstæður og að þingmenn almennt hefðu gefið sér gaum til þess að eiga viðræður hver við annan um þörfina á úrræðum fyrir þá sem eru atvinnulausir og að ræða almennt atvinnuleysið og hvernig bregðast skuli við því.

Stundum hefur verið haft mjög hátt um stöðuna í atvinnumálum okkar og margar harðar og grimmar ræður fluttar í þessum þingsal á undanförnum vetrum. Það hversu lítið hefur verið rætt um þessi mál gæti virkað á fólk eins og nú sé allt orðið gott, ekki sé þörf á neinum úrræðum, enda hefur það sýnt sig að þrátt fyrir boðskap um annað hafa engar beinar tillögur komið frá Framsfl. um aðgerðir í þágu atvinnulausra. Um þau mál á hagvöxturinn einn að sjá. En staðeyndin er sú að í apríl voru 144 þús. atvinnuleysisdagar og það var aukning frá því í mars. Þetta þýðir 5,1% atvinnuleysi en það er meira atvinnuleysi hjá konum en körlum og má áætla að atvinnuleysi kvenna sé um það bil eða yfir 7%.

Í frv. því sem ég mæli fyrir, virðulegi forseti, felst tillaga um að í eitt ár á tímabilinu frá 1. ágúst 1996 til ágúst 1997 fái þau fyrirtæki, sem ráða til sín fólk af atvinnuleysisskrá og óska að taka þátt í slíku átaki eða slíkri aðgerð, afslátt eða endurgreiðslu á tryggingar- og ábyrgðargjaldi sem nemi 30 þús. kr. á mánuði eða um það bil helming af almennum lágmarkslaunum. Miðað er við að slík lög væru sett nú í maí en tækju gildi 1. ágúst. Mikilvægt að líta á þessar dagsetningar vegna þess að miðað er við að viðkomandi hafi verið á atvinnuleysisskrá þegar hann er ráðinn en jafnframt hafi hann verið atvinnulaus a.m.k. fjórar vikur á tímabilinu mars til apríl 1996. Þetta er sett þannig fram svo að ljóst sé að fyrirtæki sé vissulega að ráða þann sem búið hefur við atvinnuleysi um þriggja mánaða skeið. Líka að ekki sé hægt að spila með slíka lagasetningu heldur séu þarna lög sett á ákveðnum tíma, fyrir liggi hverjir hafi verið á atvinnuleysisskrá í apríl og maí og fyrirtækin að sækja um núna í júní og júlí eða þar til væri lokað fyrir það og síðan taki gildi afslátturinn eða þátttakan frá 1. ágúst.

Það sem skiptir máli í þessu frv., virðulegi forseti, er að um er að ræða úrræði fyrir atvinnulaust fólk sem nú hlýtur atvinnuleysisbætur sem eru mun hærri en þessi 30 þúsund. Þess vegna væri ekki verið að kosta til nýju fé en þarna væri verið að bregaðst við því að ástand hefur batnað og einhver vöxtur í augsýn.

Staðreyndin er sú að núna að undanförnu hefur verið talað um að það hafi mjög birt til á vinnumarkaði, að fyrirtæki hafi verið að eflast, meiri umsvif séu hjá flestum fyrirtækjum. Þegar ég talaði við Hagstofuna, aðila hjá verkalýðsfélögum og öðrum, það er ekki til töluleg úttekt á því, en það virðist svo, virðulegi forseti, að það góðæri sem sé að ganga í garð skili sér ekki í fjölgun starfa hjá hverju fyrirtæki. Það sé fremur þannig að það aukist vinna hjá þeim sem eru í vinnu og meiri yfirvinna þannig að þau umsvif sem hafa aukist skili sér ekki í fjölgun starfa heldur fyrst og fremst í því að það er meira að gera í hverju fyrirtæki.

Virðulegi forseti. Í frv. kemur fram til hverra þessi lög taka ekki, svo sem eins og Alþingi, fyrirtæki ríkisins og félagasamtök, að skilyrði fyrir endurgreiðslunni séu að vottorð komi frá vinnumálaskrifstofu sem sýni að einstaklingurinn hafi verið atvinnulaus og að engum hafi verið sagt upp hjá fyrirtæki á síðustu þremur mánuðum. Ef einhverjum starfsmanni yrði sagt upp á gildistíma laganna, þessu eina ári, þá félli niður rétturinn til frekari endurgreiðslu. Þarna kemur mjög vel fram að greiðslurnar, þessar 30 þús., eru fyrir nýjan starfsmann sem yrði ráðinn þannig að fyrirtæki væri að fá afslátt og t.d. fyrirtæki með 10 einstaklingum væri kannski að fá afslátt sem næmi tryggingagjaldinu af tveimur starfsmönnum. Þetta er veruleg umbun fyrir lítil fyrirtæki. Tillagan er um að þau fyrirtæki sem eru með 10 manns eða fleiri geti ráðið einstaklinga upp á þennan stuðning. Vegna hvers er verið að taka til 10 starfsmenn í fyrirtækjum? Það er vegna þess að markmiðið með þessu lágmarki byggist á nauðsyn þess að mynda ákveðinn hvata fyrir stækkun lítilla fyrirtækja. Ef litið er á stærðardreifingu fyrirtækja hér á landi miðað við fjölda starfsmanna sést að fyrirtæki með færri en 10 starfsmenn eru mjög algeng. Það er langstærsta hlutfallið. Ef litið er á súluritin sem fylgja frv. þá kemur það fram að langflest fyrirtæki hafa færri en 5 starfsmenn, þar á eftir koma fyrirtæki með 5--10 starfsmenn en það er eins og það verði einhver þröskuldur þarna og ákveðin tregða til þess að fara yfir þennan 10 starfsmanna þröskuld. Það er mat mjög margra sem skoða vinnumarkaðinn að ástæða sé til að reyna að vera með stuðning til þess að fyrirtæki fari upp fyrir þennan þröskuld. Ef frv. verður samþykkt verður það ekki aðeins úrræði fyrir atvinnulausa heldur jafnframt hvati til þess að fyrirtækið fari frekar í stækkun en að bólgna alltaf út innan starfsmannafjöldans og stuðningur við það að lítið fyrirtæki fjölgi við sig og reyni að stækka og komast örlítið upp á við.

Virðulegi forseti. Ég hef fallist á að nota ekki eins langan tíma og ég hefði annars gert í framsögu fyrir þessu máli til þess að fá tækifæri til að mæla fyrir þessu góða máli þannig að það komist til félmn. og fái þar umfjöllun. Í greinargerð með frv. kemur fram að í nýlegri skýrslu iðnrn. um tengsl sjávarútvegs og iðnaðar kom fram að ein af ástæðum þess að viðskiptaleg tengsl sjávarútvegs og iðnaðar eru ekki meiri en raun ber vitni er að fyrirtæki í iðnaði hafi ekki burði m.a. vegna smæðar sinnar til að taka við öllum þeim jákvæðu tækifærum sem öflugur sjávarútvegur býður upp á. Þetta er mjög athyglisvert. Þau eru of smá, þau eru of fámenn og við höfum kannski ekki verið að gera nægilegt þó að ég viti að Iðntæknistofnun og fleiri eru með ýmislegt í gangi til þess að vera hvetjandi í þessum efnum er ekki beinum stjórnvaldsaðgerðum til að dreifa í þessu efni.

Tilraun sem þetta frv. gerir ráð fyrir og gilda á í eitt ár gæti haft mikil og víðtæk áhrif ef vel er staðið að málum en eðlilegt að stjórnvöld og Alþingi hugi að fleiri slíkum vaxtahvötum til eflingar smærri fyrirtækjum. Ég get tekið fram, virðulegi forseti, að ég hef skoðað þetta mál alveg frá því fyrir einu ári þegar ég átti viðræður við kollega mína á Norðurlöndum þegar ég sinnti starfi vinnumálaráðherra. Mér er kunnugt um það að aðgerð af þessum toga var reynd á sl. vori í Svíþjóð, að sjálfsögðu með nokkuð öðru sniði því að eðlilega verður maður að taka mið af innlendum aðstæðum þegar maður smíðar mál af þessum toga. Hvetjandi aðgerð til að fyrirtæki fjölgi starfsmönnum gaf hátt í 30 þúsund manns störf sl. vor í Svíþjóð. Þeir sem hafa skoðað þessi mál í grannlöndum okkar, sem hafa farið út í ýmsar slíkar aðgerðir, telja að þetta sé með bestu aðgerðum sem þar hafa verið reyndar.

Virðulegi forseti. Ég ætla að standa við það sem ég hef lofað og þó að mér liggi miklu meira á hjarta í þessu máli ætla ég að láta staðar numið og legg til að málinu verði vísað til hv. félmn.