Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 10:35:38 (6473)

1996-05-23 10:35:38# 120. lþ. 146.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur

[10:35]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við höfum gagnrýnt harðlega vinnubrögð ráðherra og tilurð þessa frv. sem er nýr og framandi þáttur í samskiptum ríkisstjórnar við launþegasamtökin í landinu. Við teljum að með þessum vinnubrögðum sé varpað fyrir róða grundvelli þeirrar samvinnu sem skapaði þjóðarsátt og efnahagsbata. Sameinuð íslensk verkalýðshreyfing hefur varað stjórnvöld við að breyta samskiptareglum á vinnumarkaði með slíkum yfirgangi og varar eindregið við þeim breytingum á réttarstöðu launþega og samtaka þeirra sem felast í frv. Þrátt fyrir að hörð andstaða í þingsal, andstaða verkalýðshreyfingarinnar og málefnaleg umfjöllun félmn. hafi gerbreytt frv. frá upprunalegri mynd þannig að nú má segja að það sé stefnu- og markmiðslaust plagg, þá hafnar þingflokkur Alþfl. þessari lagasetningu og íhlutun í innri málefni stéttarfélags sem í henni felst.

Virðulegi forseti. Við styðjum að málinu verði vísað til ríkisstjórnar en munum að öðrum kosti sitja hjá við breytingartillögur og greiða atkvæði gegn frumvarpsgreinum. Ég segi já.