Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 10:48:31 (6482)

1996-05-23 10:48:31# 120. lþ. 146.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GGuðbj (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur

[10:48]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. var í sinni upphaflegu mynd ein grófasta atlaga gegn verkalýðshreyfingunni í landinu og mannréttindum vinnandi fólks sem fram hefur komið á Alþingi Íslendinga. Þó að frv. sé nú nokkuð breytt vegur það enn að rétti vinnandi fólks. Það er kaldhæðnislegt að hinn lýðræðislegi kjörni meiri hluti Alþingis vegi að lýðræðislegum rétti þegnanna til að ráða sjálfir umboði samningamanna sinna og fyrirkomulagi á ákvarðanatöku um samþykkt kjarasamninga. Vafalaust má bæta lýðræðið innan verkalýðshreyfingarinnar ef marka má stöðu kvenna innan samtakanna, ekki síst stjórnar ASÍ, en þetta frv. er ekki leiðin til þess. Á hvaða braut er lýðræðið í landinu?

Frv. vegur að ákvæðum alþjóðlegra sáttmála um félagafrelsi og samningsrétt stéttarfélaga. Við kvennalistakonur höfnum þessu frv. og ég segi því já við því að vísa frv. til föðurhúsanna.