Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 11:17:09 (6501)

1996-05-23 11:17:09# 120. lþ. 146.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur

[11:17]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í umræðum um þetta frv. varð mörgum að orði að sennilega væri það skásta hugmyndin í frv. að hafa viðræðuáætlanir. Ég er sannfærð um að með öðruvísi vinnubrögðum hefði tekist að ná samkomulagi um framgang þessarar góðu hugmyndar en ríkisstjórnin ákvað að keyra frv. fram með valdi og hefur kallað fram hörð viðbrögð sem komu berlega í ljós í umsögnum sem félmn. bárust og í málflutningi gesta. Upphafleg hugmynd starfshóps var að heildarsamtök gerðu viðræðuáætlun til að gera samningaviðræður skilvirkari. Lögfesting samflotsins er rokin út í veður og vind og eftir stendur að réttur til að gera viðræðuáætlun er eftir sem áður hjá einstökum félögum. Lögþvingun mun leiða til þess að gerðar verða hundruð eða þúsundir viðræðuáætlana á þessu hausti. Með þessu hefur góðri hugmynd verið snúið upp í andhverfu sína með klúðurslegum vinnubrögðum. Ég segi nei.