Spilliefnagjald

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 13:09:12 (6517)

1996-05-23 13:09:12# 120. lþ. 147.4 fundur 252. mál: #A spilliefnagjald# frv. 56/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur

[13:09]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að vera skilningsríkur í þessu máli og bregðast fljótt við að veita mér orðið. Hér er um að ræða frv. sem hefur verið með erfiðari málum ríkisstjórnarinnar á þessu þingi, frv. til laga um spilliefnagjald, en eins og kom fram við 2. umr. málsins þá lá þetta mál óafgreitt hjá meiri hluta umhvn. þingsins eftir að við í minni hluta eða stjórnarandstöðufulltrúar töldum að umfjöllun væri lokið um málið. En eftir miklar og langvinnar fæðingarhríðir á nefndaráliti hjá stjórnarliðum þar sem málið snerist um það mikla vandamál að ekki mátti sjást nefnt á prenti nafn Vinnumálasambands samvinnufélaga að kröfu annars stjórnarflokksins, þá beygði að vanda hinn stjórnarflokkurinn, Framsfl., sig mjúklega fyrir samstarfsflokknum og lagði niður skottið, tillöguflutning og hugmyndir um tillögur um það að Vinnumálasamband samvinnufélaga fengi fulltrúa í spilliefnanefnd.

Við 2. umr. fluttum við fulltrúar stjórnarandstöðu og áheyrnarfulltrúi í nefndinni, fjórir þingmenn, tillögu um að 7. fulltrúi í nefndinni --- lagt hafði verið til af meiri hlutanum að fjölga í nefndinni. Við tókum undir það að fjölga í nefndinni um sjö --- en við gerðum tillögu um að Neytendasamtökin fengju þar fulltrúa. Þessi tillaga fékk stuðning 20 hv. þingmanna við atkvæðagreiðslu við 2. umr. málsins en var felld af stjórnarliðum svo að hún er ekki lengur hér á borði og ekki tekin upp sérstaklega. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs er nefndarálit umhvn. varðandi nefndarskipunina en samkvæmt frv. eins og það nú lítur út er hæstv. umhvrh. ætlað að tilnefna tvo fulltrúa, formann og einn að auki. Um það segir í nefndaráliti, með leyfi forseta:

,,Nefndin telur mikilvægt að helstu sjónarmið atvinnulífsins og almennings eigi greiðan aðgang að spilliefnanefndinni og verði það best tryggt með nefndarskipaninni. Til að þessu markmiði verði náð þykir nauðsynlegt að fjölga nefndarmönnum um einn. Því er lagt til að ráðherra skipi tvo nefndarmenn í stað eins áður.``

Það er sem sagt að tryggja það að sjónarmið atvinnulífsins og almennings eigi greiðan aðgang að spilliefnanefndinni.

Þegar ég spurði hæstv. umhvrh. við 2. umr. málsins um það hvernig hann hygðist beita skipunarvaldi sínu í þessu máli, þá vékst hæstv. umhvrh. undan því að svara með vísan til þess að það væri ekki búið að ákvarða um málið, það væri ekki búið að greiða atkvæði um þetta efni. Nú liggur hins vegar fyrir að samþykktir hafa verið að tillögu meiri hlutans sjö fulltrúar og að hæstv. ráðherra skipi þar tvo, en leiðsögnin fylgir frá nefndinni um það að helstu sjónarmið atvinnulífsins og almennings eigi greiðan aðgang að spilliefnanefndinni. Nú spyr ég hæstv. umhvrh. að því hvernig hann hyggst verða við þessum tilmælum umhvn. samkvæmt nefndaráliti þar sem fyrir liggur að hæstv. ráðherra hefur vald til þess að skipa tvo í nefndina og bið um upplýsingar um það áður en umfjöllun um þetta mál lýkur í þinginu.