Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 17:35:31 (6533)

1996-05-23 17:35:31# 120. lþ. 147.5 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur

[17:35]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. 1. þm. Vestf. ætti að reyna að telja einhverjum öðrum en mér og þeim sem hér sitja trú um það að engin tengsl séu á milli Morgunblaðsins og Sjálfstfl. Ég held að það sé ofverk hans að reyna að sannfæra okkur um að þar á milli séu engin tengsl eða að annar aðilinn hafi ekki veruleg áhrif á hinn. (Gripið fram í: Hvað er langt síðan þingmaðurinn hefur lesið Morgunblaðið?) Ég held að ég geti fullyrt það að Morgunblaðið túlkar yfirleitt þær skoðanir sem uppi eru innan Sjálfstfl. Það er að vísu ekki alltaf fylgjandi meiri hlutanum innan Sjálfstfl., stundum er það minni hlutinn sem fær stuðning blaðsins. En blaðið er mótað af þeim mönnum sem standa að því og þeir eru flokksmenn Sjálfstfl. og eru yfirleitt í innsta hring forustuliðs flokksins þannig að ég held að þetta sé fánýt umræða. Það segir sig sjálft að þegar Morgunblaðið boðar allt aðra stefnu, að það vilji ganga miklu lengra í málefnum Pósts og síma en hæstv. samgrh. hefur lýst yfir að hann vilji gera þá hljóta menn að leggja við hlustir því að þeir gera sér grein fyrir því að það kemur dagur eftir þennan dag og það kemur maður eftir þann mann sem nú er við völd. Menn gera sér grein fyrir því að þarna er fluttur boðskapur sem kann að vera stefna Sjálfstfl. að skömmum tíma liðnum. Það er það sem við óttumst. Það getur vel verið að það sé gott að njóta þess að hafa hæstv. núv. samgrh. við völd um þær skoðanir sem hann hefur. En við höfum enga tryggingu fyrir því að sú stefna verði áframhaldandi uppi innan Sjálfstfl. og það er hættan. Margt bendir til þess að það sé veruleg stefnubreyting í aðsigi.