Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 10:50:47 (6539)

1996-05-24 10:50:47# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta EOK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[10:50]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frhnál. meiri hluta efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Nefndin hefur tekið málið aftur til umfjöllunar að lokinni 2. umr. og fengið á sinn fund Eirík Tómasson prófessor, Gunnar Björnsson frá fjmrn., Birgi Björn Sigurjónsson frá BHM, Rannveigu Sigurðardóttur frá BSRB, Eirík Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Friðbert Traustason frá Sambandi ísl. bankamanna og Þórunni Sveinbjörnsdóttur frá ASÍ.

Nefndin varð við þeirri ósk minni hlutans að þrír þekktir lögmenn gæfu sérstakt álit sitt á þessu frv., hvað þeir og gerðu. Ég ætla að nefndarálit þeirra liggi fyrir og menn hafi getað kynnt sér það. Þeir voru Andri Árnason hæstaréttarlögmaður, Lára V. Júlíusdóttir héraðsdómslögmaður og Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður. Þau mættu síðan á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir nefndarálitum sínum.

Meiri hluti efh.- og viðskn. gerir tillögur um það að gerðar verði nokkrar breytingar á frv. frá 2. umr. (Gripið fram í: Hve margar?) Þær eru 16. Ástæður þess eru fyrst og fremst þær að það liggur núna fyrir að svokallaður bandormur sem ætlað var að fluttur yrði í sambandi við þessi frumvörp kemur ekki fyrir þingið fyrr en í haust. Þess vegna var nauðsynlegt að breyta ákveðnum hlutum eins og fram kom við 2. umr. þegar ákveðnar tillögur voru dregnar til baka. Svo og hefur nefndin talið rétt að taka tillit til nokkurra þeirra ábendinga sem komið höfðu fram frá umsagnaraðilum um þetta mál, bæði forustumanna stéttarfélaga svo og þeirra lögmanna sem ég gat um áðan.

Breytingartillögurnar liggja fyrir á þskj. 1057. Flestar þeirra eru orðalagsbreytingar eða lagatæknilegs eðlis og skýra sig sjálfar. Ég skal fara aðeins yfir það.

1. tillagan við 2. gr. er orðalagsbreyting. Við 5. gr. kemur breyting vegna breytingar á 22. gr. Í 9. gr. er nýtt ákvæði. Þar er um aukinn rétt launþega að ræða, það er verið að koma til móts við ákveðna gagnrýni og beiðni sem hefur komið fram. Í 19. gr. er raunverulega um sama atriði að ræða og í 9. gr. Það er 22. gr. sem kemur þarna til vegna þess að fyrrgreint frv. um breytingar á sérákvæði í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins verður ekki flutt núna. Er óhjákvæmilegt að koma með tæmandi upptalningu á embættismönnum og lýtur þessi breyting að því. Til álita kom að taka háskólaprófessora upp í 22. gr. en frá því var horfið að þessu sinni m.a. vegna þess að sett hefur verið á stofn nefnd á vegum Háskóla Íslands sem ætlað er að samræma viðhorf háskólans og háskólakennara til þess hvort prófessorar eiga framvegis að vera embættismenn. Kemur það mál til kasta Alþingis þegar fjallað verður um breytingar á starfsmannaákvæðum í háskólalögum sem ráðgert er í frv. um breytingar á sérákvæðum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo og ýmis önnur mál er varða réttindi og skyldur einstakra starfsstétta.

Þá tel ég sérstaklega rétt að geta þess að staða presta og prófasta í þessu máli getur orkað mjög tvímælis og nefndin velti því töluvert fyrir sér hvort það væri rétt að telja þá upp þarna eður ei. En samkvæmt þessu eru prestar og prófastar og vígslubiskupar embættismenn og lúta þeir almennum ákvæðum sem gilda skulu um embættismenn, þar með talinn ráðningartími. Biskup er þó þar undanskilinn, samanber bráðabirgðaákvæði sem ég kem að á eftir. (Gripið fram í: Eru þá prestskosningar á fimm ára fresti?) Ef hv. þm. vildi hlusta á mál mitt, þá kem ég með skýringar á þessu innan andartaks. Menn verða bara að róa sig og reyna að bíða.

21. febrúar 1995 lagði hæstv. kirkjumálaráðherra fram frv. til kynningar frv. um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar. Þetta frv. hefur fengið umfjöllun á að ég ætla a.m.k. tveimur kirkjuþingum. Það verður að teljast rétt að sér\-ákvæði um presta kirkjunnar verði í þeim lögum og eðlilegt að horfa til þess um frekari útfærslu á ráðningu þeirra, t.d. um það hvort ráðningar- og stöðunefnd innan kirkjunnar geri tillögur til kirkjumálaráðherra um endurráðningu eftir fimm ára tímabil eða kjörmenn prestakalla, stöðunefnd og biskup séu í sameiningu umsagnaraðilar kirkjumálaráðherra. Þetta orkar allt mjög tvímælis en ég ætla að allflestir nefndarmenn og mjög margir á þessu háa þingi séu þeirrar skoðunar að hin rétta skipan þessara mála sé sú að kirkjan ráði því sjálf. Því er nauðsynlegt að bíða með þetta ákvæði þar til þetta frv., sem nú hefur fengið mikla umfjöllun hjá kirkjunni og var lagt fram fyrir rúmu ári, kemur til afgreiðslu í þinginu í haust. En ég tek það fram að að sjálfsögðu orkar þetta nokkuð tvímælis. (Gripið fram í: Eins og fleira.) Sérstaklega orkar þetta tvímælis þar sem kirkjan hefur sérstaka stöðu í þjóðfélaginu. Þess vegna verðum við að fjalla um hana með tilliti til þess. (SvG: Eruð þið búnir að finna það út, já.) Þetta er ekki nýtt ákvæði, hv. þm. Það hefur legið fyrir í um það bil þúsund ár. En sumir hafa kannski ekki tekið eftir því fyrr en núna. Ég get ekki svarað fyrir það.

Breytingar 8, 9 og 10 skýra sig sjálfar. Varðandi breytingu nr. 11, á 40. gr., komum við að atriði sem var mjög gagnrýnt í þeim lagaskýringum og því áliti sem við fengum. Sérstaklega taldi einn þeirra lögmanna sem nefndin ræddi við og fékk álit frá að þar væri óþarfa orð sem væri óheppilegt og að öllu samanlögðu komst meiri hluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að það væri rétt að taka tillit til þeirrar gagnrýni. Þannig að í þessari breytingu sem varðar forstjóra ríkisfyrirtækja töldum við rétt að verða við gagnrýninni og fella brott orðin ,,stuðla að``.

[11:00]

12. breytingin við 46. gr. varðar gagnrýni sem hefur komið fram frá stéttarfélögum og því töldu menn rétt að verða við því að þrengja þetta ákvæði. B-liðurinn þarna á við það sama og kemur fram í 37. gr.

13. og. 14. brtt. eru bara tækniatriði. Ef við komum að 15. brtt., þá er þetta atriði sem skýrt var í nefndarálitinu við 2. umr. Það var þá dregið til baka en kemur núna hérna fram. 16. breytingin er þá til samræmis við fyrri breytingar og skýrir sig sjálf. Þá eru lagðar til eftirfarandi breytingar á ákvæðum til bráðabirgða: Fram til 1. júlí 1997 gilda eftirfarandi ákvæði:

,,1. Þrátt fyrir eldri ákvæði í öðrum lögum er skylt að auglýsa öll laus embætti sem talin eru upp í 22. gr. laganna, skv. 7. gr. laga þessara, nema kosið sé til embættisins án undangenginnar auglýsingar.``

Hér er verið að breyta vegna fram kominnar athugasemdar sem á fyrst og fremst við umboðsmann Alþingis, sem er kosinn af þessu þingi, biskup landsins og rektor Háskóla Íslands.

Liður 2 er til þess að taka af öll tvímæli og tryggja að embættismennirnir séu þeir sem upp er talið þannig að það fari ekki á milli mála. 3. liðurinn skýrir sig sjálfur. Hér er verið að taka til dómaranna í landinu, héraðsdómara, hæstaréttardómara og ríkissaksóknara.

Eins og sést á þeirri umfjöllun sem hér er orðin í nefndinni telur meiri hlutinn að með þessum breytingum sem við leggjum til sé verið að koma mjög til móts við ýmsar þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við þetta frv. En ég vil benda á að í þeim lögfræðiálitum sem liggja fyrir er alveg ljóst að með þessu frv. er alls ekki verið að brjóta neinar alþjóðasamþykktir eða neitt slíkt eins og fullyrt hefur verið. Þvert á móti eru allir þessir lögmenn sammála þeim sérfræðingi sem stóð að þessu máli fyrst og fremst, Eiríki Tómassyni, um að hér sé alls ekki verið að brjóta neinar alþjóðareglur.

Um eitt atriði sem hefur komið til umræðu voru lögmennirnir ekki sammála, það er rétt að taka það fram. Það er hið umdeilda atriði varðandi það hvort réttindi ríkisstarfsmanna við uppsögn sem hér er verið að breyta, og er kannski eitt aðalmálið í þessu öllu saman, séu varin af stjórnarskránni sem eignarréttur. Tveir þessara lögmanna telja alls ekki að svo sé. En einn lögmannanna, Lára V. Júlíusdóttir, telur verulegar líkur á því að svo geti verið. Hitt er aftur á móti upplýst að það hefur enginn dómur gengið í þessu máli þannig að það getur enginn fullyrt neitt um það fyrr en dómar hafa gengið í málinu hvort svo sé.

Ég vona að þetta skýri það sem nefndin er að breyta og legg þetta hér með fram.