Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 12:11:52 (6545)

1996-05-24 12:11:52# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[12:11]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka það mjög skýrt fram að það er enginn efi í mínum huga um það að hv. þm. Steingrími Sigfússyni þykir mjög vænt um mig. (SJS: Já, það er rétt.) Ég get líka upplýst þingheim um að mér þykir mjög vænt um hann. En þrátt fyrir þá væntumþykju alla hef ég aldrei fundið hjá mér hvöt til að koma upp í ræðustólinn og tilkynna að ég aumkvaði hann rosalega í því hlutskipti að þurfa að standa hér daginn út og daginn inn og masa þetta fram og til baka eins og hlutskipti hans hefur verið hér undanfarnar vikur og mánuði. Hann hefur þurft að þola mikið og ég finn til með honum. En það tala ég við hann um í einrúmi, ég nota ekki ræðustólinn til þess. Það vil ég taka fram sérstaklega. Varðandi leikþáttinn áðan um þá harmrænu hluti að sá maður sem hér stendur, Einar Oddur, hefði sýnt af sér stórkostlegt geðleysi og afturför, get ég upplýst þingmanninn um það að eflaust er um afturför að ræða hjá okkur öllum, menn byrja víst að hrörna eftir 14--15 ára aldur er mér sagt. En geðlaus er ég ekki. Ég get sagt honum að ég flyt þetta mál fyrir hönd meiri hlutans og tel okkur hafa fullan sóma af því. Ég tel þetta mjög þarft mál. Það er nauðsynlegt að flytja þetta mál. Ég lít á það sem upphaf að langri vegferð þannig að kjaraumhverfi allra launþega í landinu verði að lokum hið sama, hvort sem þeir vinna hjá hinu opinbera eða á almennum markaði. Það er að vísu löng leið að því markmiði, en við verðum að hefja hana einhvers staðar. Auðvitað er það rétt sem ég sagði í upphafi máls míns að margt í þessu orkar tvímælis. En það liggur samt fyrir að við höfum ekki, eins og fullyrt hefur verið, brotið neinar þjóðréttarlegar samþykktir. Við erum ekki nokkurs staðar að brjóta neitt gegn stjórnarskrá Íslands. (Gripið fram í: Gegn Ágsborgarjátningunni.) Og ekki Ágsborgarjátningunni heldur.

Hv. þm. vitnar til frægra stórskálda eins og Shakespeares. Ég vil minna hann á að Shakespeare samdi ekki bara harmleiki, hann samdi líka kómedíur sem voru mikið notaðar af trúðum og skemmtikröftum. Ein þeirra heitir ,,Much ado about nothing`` og allt þetta mas minnir mig mjög á hana.