Meðferð landbúnaðarráðuneytisins á malartökuleyfi Vatnsskarðs hf.

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 14:29:09 (6558)

1996-05-24 14:29:09# 120. lþ. 148.91 fundur 318#B meðferð landbúnaðarráðuneytisins á malartökuleyfi Vatnsskarðs hf.# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[14:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi máls míns áðan að mig undrar ekkert þó að þetta máli komi til umræðu eins og komið hefur fram hjá fleiri hv. þingmönnum. Ég sagði reyndar sjálfur í svari mínu áðan að mér fyndist ekki óeðlilegt að hv. fyrirspyrjandi, málshefjandi eða aðrir hv. þingmenn, spyrðu ítarlegar um málið og það væri þá hægt að gefa ítarlegar upplýsingar, skriflegar upplýsingar um ýmis önnur efnistriði sem hefur m.a. borið á góma en erfitt verður að rekja í svo stuttu máli sem utandagskrárumræðan felur í sér þannig að ég hef ekki neina athugasemd við það að gera.

Út af því sem kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um hver hafi með svona mál af þessu tagi að gera vil ég segja það að vil ég ógjarnan stunda ólögleg afskipti eins og hv. þm. orðaði það þannig að hafa skal það sem sannara reynist. En ráðuneytið ráðstafar ýmsum hlunnindum á ríkisjörðum. Landbrn. fer með ríkisjarðir. Þar má t.d. tala um ýmiss konar nytjar aðrar en námuréttindi sem ráðuneytið hefur ráðstafað og leigt sem landeigandi en hitt er líka rétt og má segja það til að fyrirbyggja misskilning að samningar ráðuneytisins um töku jarðefna fela í sér heimild landeiganda til nýtingar og ráðstöfunar á tilteknum jarðefnum en eru ekki námuleyfi sem slíkt. Með námuleyfi og útgáfu þeirra fer samkvæmt námulögum og er enginn ágreiningur af minni hálfu við hv. þm. varðandi það og iðnrn. fer með slíka hluti.

Hæstv. forseti. Út af því sem komið hefur fram hjá einum hv. þm. um að það kunni að vera um óeðlileg tengsl að ræða og kannski alvarleg misferli af hálfu embættismannanna leyfi ég mér að fullyrða að svo sé ekki. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að mál þetta hafi verið unnið í góðri trú af þeim sem það gerðu af hálfu ráðuneytisins. Ég ítreka líka það sem ég sagði í lok máls míns án þess að í því felist nein viðurkenning á einhverri sök eða ósæmilegu athæfi að það er sjálfsagt að taka mál af þessu tagi til ítarlegri umfjöllunar í landbrn. en gert hefur verið og fara betur ofan í þau, ekki síst ef það má ætla að ríkissjóður, sem ráðuneyti landbúnaðarmála er auðvitað bara einn hluti af, sé að tapa stórfé á gjörningnum eins og hv. þm. hefur fullyrt en hugmyndir landbrn. eru allt aðrar hvað varðar verðmæti samningsins og ég get ekki gerst dómari í því efni.