Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 15:27:33 (6565)

1996-05-24 15:27:33# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[15:27]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun síðar í dag taka til máls við þessa umræðu og þá get ég til að mynda vikið að svokallaðri forgangsröðun í heilbrigðismálum og hvernig hún tengist því máli sem hér er á dagskrá. En vegna fyrirspurnar hv. þm. vil ég segja að það er almennt viðurkennt í íslenskum rétti samkvæmt íslenskum lögum að það eru fjárlög og lánsfjárlög sem ráða umfangi starfseminnar. Það eru mjög mörg dæmi um að löggjafarvaldið setur lög þar sem fram koma stefnumið, oft almenn en stundum sértæk. Löggjafarvaldið hefur með þessu verið að móta stefnu sem ætlunin er að fylgja í starfsemi ríkisins. Á hverju ári eru hins vegar samþykkt bæði fjárlög og lánsfjárlög og í þeim lögum er að finna það fjármagn sem til ráðstöfunar er. Og það er enginn minnsti vafi á því að stjórnendum stofnana sem starfa eftir lögum ber að haga starfseminni innan ramma fjárlaga og þeirra fjárveitinga sem Alþingi, fjárveitingavaldið og löggjafarvaldið, fær þeim í hendur á hverju ári.

Auðvitað er það svo að stundum kunna að vera eðlilegar skýringar á því að farið sé fram úr fjárlögum. Sé það gert með fullri vitneskju og vitund framkvæmdarvaldsins sem ber ávallt ábyrgð á þessum málum, ráðherrar geta ekki skotist undan ábyrgð, er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að meiri hlutinn eða ráðherra tryggi að fram séu lagðar lagabreytingar á þinginu sem tryggi að nægilegt fjármagn fáist jafnvel þótt það sé gert eftir á. Auðvitað er slíkt ávallt vandmeðfarið en ég held að það sé ekki nokkur vafi á því að það er almennt litið þannig á að fjárlög og lánsfjárlög takmarki fjárhagsleg umsvif stofnana hvað sem líður stefnumiðum í sérstökum lögum.