Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 15:31:07 (6567)

1996-05-24 15:31:07# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[15:31]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það eina nýja í þessu frv. sé að það er tekið skýrar til orða um ábyrgð stjórnenda á starfsemi þeirri sem fer fram á viðkomandi stofnunum eða í fyrirtækjum í eigu ríkisins. Það er sá munur eftir að þetta frv. verður að lögum. Ég held að það sé hins vegar alveg skýrt og ljóst og hefur komið fram og reyndar oft verið gagnrýnt að Alþingi setur lög sem síðan eru tekin aftur árlega í lánsfjárlögum og fjárlögum. Þeir sem sitja á Alþingi kannast við svokölluð ,,þrátt-fyrir``-ákvæði sem oft eru mörg í lánsfjárlögum eða í bandormum sem ríkisstjórnir flytja og hafa gert árum og áratugum saman. Þessir lagabálkar fjalla einungis um það að takmarka lögbundin umsvif með því að marka starfsemi þrengri skorður en almenn lög gera ráð fyrir. Það er ekki nokkur vafi á því að árleg lánsfjárlög og fjárlög ráða í þessum efnum hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Það er hins vegar réttmæt gagnrýni sem fram kemur hjá hv. þm. og hefur oftsinnis komið fram áður á Alþingi að sjálfsagt ætti fjárveitingarvaldið og löggjafarvaldið þegar það setur almenn lög um ýmsa starfsemi að gæta sín á því að hafa lögin ekki með svo háleitum markmiðum að það ofbjóði fjárhagsgetu þjóðarinnar. Það er til umhugsunar.