Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 17:17:29 (6569)

1996-05-24 17:17:29# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[17:17]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að rétta nafnið um síðustu ræðu sé hugvekja vegna þess að hér fór reyndur þingmaður víða um völl og var ekki alls kostar ánægður með allt sem á daga hans hafði drifið upp á síðkastið. En það var ánægjulegt. Ég ætla að hv. þm. og ég séum eitthvað á svipuðu reki. Helst er þó munurinn á okkur sá að hann hefur eytt lunganum af ævi sinni í þessum sal en ég kom fyrir tilviljun rétt fyrir ári. Honum finnst mikil sorg að sjá menn sem eru þó ekki búnir að vera lengur á þingi en ég, ekki bros á brá skildist mér og ljónshjörtun komin eitthvað niður í buxur eða þaðan af lengra. Ég held að þetta sé ástæðulaust hjá þingmanninum en ég vil samt benda hv. þm. á að hann flutti loflega tölu um mig. Ég ætla að það sé nokkuð oflof vegna þess að það er rangt þegar við metum söguna að persónugera hana mjög.

Það að okkur takist að ganga þokkalega frá málum eins og á vinnumarkaðnum er vegna þess að menn sjá sameiginlega hagsmuni því að öðruvísi mundu menn ekki semja. Kannski getur einstaka mönnum gefist sú gæfa að veita mönnum sýn en þeir gera þá ekki annað. Það eru sameiginlegir hagsmunir í öllum lýðræðissinnuðum þjóðfélögum og þeir hagsmunir munu ráða því hvort menn ná samningum, ekki fjas eins og það sem við höfum mátt heyra í þessari þingstofu svo oft í vetur. Ég hef heyrt mikið fjas og mjög oft. Ég kalla það fjas, ég nota mitt tungumál um það.