Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 17:23:45 (6573)

1996-05-24 17:23:45# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[17:23]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Frv. um réttindi og skyldur sem enn er rætt hefur fengið þinglega meðferð og langa og mikla meðferð. Það hefur tekið breytingum, það hefur slípast í meðförum þingsins. Málatilbúnaður hefur verið mikill og ferlið langt. Andstaðan í þinginu hefur verið að þæfast fyrir, helst ekki að vinna að betri lagasmíð. Vinnan hefði getað gengið miklu betur ef hv. stjórnarandstaða í þinginu hefði beitt hæfileikum sínum, þekkingu og reynslu sem allt er til staðar í annað en langar ræður og stundum daufar þó að það eigi vissulega ekki við um alla.

Hv. þm. sem talaði síðastur talaði um nauðsyn á fleiri umræðum, helst fjórar umræður. Það hefði verið að bera í bakkafullan lækinn í þessu máli. Nóg er komið af slíku og mér er spurn: Hvar eru hugsjónirnar í öllum ræðuhöldunum?

Hann vék að þjóðkirkju landsins og starfsmannamálum hennar. Það er komið fram í umræðunni hjá frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. að um er að ræða bráðabirgðaskipan til haustsins þangað til kemur að því að flutt verður frv. til laga sem var reyndar kynnt á síðasta þingi um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar og þar er stigið enn skref í átt til meira sjálfstæðis kirkjunnar frá ríkisvaldinu. Það er rétt spor að mínum dómi og kirkjan og stofnanir hennar munu að veita umsagnir um það. Nú er eingöngu um að ræða bráðabirgðaskipan og starfsmenn kirkjunnar hafa fylgt hingað til embættismönnum ríkisins í réttindum og skyldum og erfitt að slíta þar á milli núna vegna þess að hin lögin eru rétt fram undan.