Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 17:28:32 (6576)

1996-05-24 17:28:32# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[17:28]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hv. þm. getur flutt brtt. ef hann vill. Hann þarf ekkert að una þessu ákvæði. Hann hefur ekki svarað því enn þá af hverju í ósköpunum hann lætur beygja sig með þessum hætti. Ég skil ekki af hverju það er.

Hv. þm. Pétur Blöndal kvartaði undan því áðan hvernig það væri að vera minni hluti í Sjálfstfl. Það eru greinilega fleiri sem þurfa að bera sorgir sínar á torg í þeim efnum eins og hv. þm. Hjálmar Jónsson. Þetta er nú meiri flokkurinn sem fer svona með góða drengi eins og þessa tvo hv. þm.

Varðandi ummæli hans um stjórnarandstöðuna finnst mér þau satt að segja fjarska ósanngjörn. Hv. þm. er að gefa það í skyn að stjórnarandstaðan hafi ekki lagt fram neinar hugmyndir um lagfæringar á málinu. Ég ætla bara að nefna eitt dæmi. Það var að ósk stjórnarandstöðunnar að umræða um málið, t.d. í efh.- og viðskn., varð jafnítarleg núna á milli 2. og 3. umr. og hún varð. Það var að ósk stjórnarandstöðunnar að þrír lögfræðingar voru fengnir til þess að fara yfir málið. Það var að ósk stjórnarandstöðunnar sem þeir hlutir voru síðan teknir upp og niðurstaðan er sú að þetta er tekið inn. En hv. þm. virðist ekki gera sér grein fyrir því að í frumvörpunum og aðferðinni við að leggja þau fram er verið að taka einhliða frumburðarréttinn af verkalýðshreyfingunni í landinu og það verður hann að reyna að skilja. Það hefur aldrei áður gerst að vinnulöggjöfinni allri hafi verið breytt í blóra við alla verkalýðshreyfinguna í landinu, hvert einasta verkalýðsfélag, og nú er hann meira að segja ásamt félögum sínum kominn í stríð við sjálfa þjóðkirkjuna. Því hefði enginn spáð.