Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 18:32:50 (6583)

1996-05-24 18:32:50# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[18:32]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri ástæða til þess að halda þessari umræðu áfram um efnahagsstjórnun og aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Ég veit ekki betur en launamunur eða launabil hafi aukist hvort sem við horfum á vinnumarkaðinn almennt eða launamun milli karla og kvenna.

Mér verður tíðrætt um 22. gr. frv. Það er ekki vegna þess að ég hafi svo mikinn áhuga á því hverjir eru embættismenn og hverjir ekki, heldur fyrst og fremst vegna þess hvaða prinsipp liggur þarna að baki. Hvað er verið að gera með þessari grein? Það er mjög fróðlegt að skoða upphaflegt frv. og síðan þær tvær breytingartillögur sem hafa verið gerðar við þessa grein. Mér finnst umræðan og túlkun hæstv. fjmrh. á þessu alveg furðuleg. Það er eins og menn geti komið og óskað eftir því að gerast embættismenn. Hvert er prinsippið í þessu, hæstv. fjmrh.? Með þessari skilgreiningu er verið að svipta þessa ákveðnu starfsmenn réttinum til að semja um eigin kaup og kjör sem er kveðið á um í stjórnarskránni að sé réttur manna. Það er verið að taka af mönnum verkfallsrétt og það er verið að takmarka meira að segja tjáningarfrelsi. Það er því alveg ljóst samkvæmt íslensku stjórnarskránni og samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum að þennan rétt má aðeins takmarka við ákveðna hópa.

Eins og frv. kom fram í upphafi, var þetta mjög breiður hópur. Nú segir hæstv. fjmrh. að það hafi aldrei staðið til að hann yrði svona stór. Hvað voru menn eiginlega að gera? Var verið að senda þetta inn á þing til þess að menn gætu skoðað viðbrögðin og séð hverjir vildu vera embættismenn og hverjir ekki? Hvað var eiginlega að gerast? Ég spyr. Það þarf að vera ákveðið prinsipp í þessu. Hvert er það? Hvernig ætlar hæstv. fjmrh. að bregðast við ef prófessorar frá Háskóla Íslands koma kannski aftur og vilja verða embættismenn? Er það skynsamlegt þegar prófessorar við Kennaraháskólann og á Akureyri eru því andvígir? Hver á reglan að verða? Það hlýtur að eiga að gilda um þetta ákveðin stjórnssýsluregla.