Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 18:35:24 (6584)

1996-05-24 18:35:24# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[18:35]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um 22. gr. Það er hárrétt hjá hv. þm. að það eru nokkrir erfiðleikar í þessu máli vegna þess að heilu stéttirnar í sumum tilvikum hafa hreinlega óskað eftir því mjög eindregið við löggjafarsamkomuna að láta taka af sér verkfalls- og samningsréttinn. Prestar gerðu það líka á sínum tíma og óskuðu eftir því að fara í kjaranefndina. Það var ekki tillaga fjmrh. þó hann legði fram frv. Þingið réði því eftir að rætt var við presta á sínum tíma, enda gengu prestar þá úr samtökum Bandalags háskólamanna og vildu ekki lengur vera í þeirra hópi. Okkur er því vissulega vandi á höndum þegar við ræðum um það hverjir eigi að vera embættismenn og hverja skuli taka þar með. Ég hef tilhneigingu til þess að hlusta á raddir slíkra aðila hvort sem þeir eru prófessorar eða prófastar.

Varðandi tjáningarfrelsið stóð aldrei til að þessi grein í frv. væri víðtækari en sú grein sem er í lögunum frá 1915. Sé það áhorfsmál vegna orðanna að ,,stuðla að``, er sjálfsagt að laga það. Enda hefur það verið gert með brtt. og því hefur verið lýst yfir margoft að það átti ekki að víkka þá lagagrein sem er í gildi frá árunum 1915. Og vissulega gæti verið kominn tími til að líta á það hvort eigi að endurskoða þau lög. (SJS: Já, auka mannréttindin miðað við það, já.) Það kemur til greina. (SJS: Það er nú að verða öld síðan.)

Lykilhugtakið í 22. gr. er orðið ,,skipaður``. Það er lykilatriðið, ég vek athygli á því. Í því felst að eingöngu skipaðir menn eru embættismenn þannig að það stóð aldrei til að starfsfólk Stjórnarráðsins sem ekki er skipað, yrði að embættismönnum. Það er hreinn misskilningur.

Varðandi launamuninn er það rétt að hér eins og víðast annars staðar hefur launamunur heldur aukist. En það þarf að koma fram að launamunur hér á landi á milli þeirra hæstu og lægstu og launamunur kynjanna er óvíða jafnlítill. Og launamunur þeirra sem eru hæst launaðir og þeirra sem eru lægst launaðir er minni hér á landi en þekkist í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum.