Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 18:47:07 (6589)

1996-05-24 18:47:07# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[18:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel gagnstætt því sem hv. þm. segir að álitsgerðir lögfræðinganna þriggja séu mestan part viðurkenning á viðhorfum stjórnarmeirihlutans. Það er mín staðhæfing í þessu máli. Menn geta haft aðra skoðun á því. Ég hef verið að lesa þetta undir umræðunum í dag, fengið leyfi til þess og reynt að hlusta auðvitað á umræðuna jafnframt og ég sé ekki betur en það sé að langmestu leyti verið að viðurkenna það að þessar breytingar sem verið er að gera séu heimilar út frá stjórnarskránni og einnig vegna samþykkta sem við erum aðilar að á alþjóðavettvangi.

Það voru ekki mín mismæli að tala um að tillögurnar kæmu frá fjmrn. En vegna þess að hv. þm. var ekki viðstaddur allan daginn í dag, þá kom þetta mál upp í orðræðu fyrr í dag. Ég var aðeins að benda á að á bls. 2 í álitsgerð Láru Júlíusdóttur segir svo, með leyfi forseta, orðrétt:

,,Einnig liggja fyrir nefndinni tillögur frá fjmrn. sem ætla má að verði teknar upp af nefndinni.``

Þetta er að sumu leyti rétt, enda liggur það í hlutarins eðli að frumkvæðisaðilarnir eða sá sem er frumkvöðull frv., leggi fram á síðustu stigum hugmyndir sínar. En að sjálfsögðu er það meiri hluti nefndarinnar sem ræður hvaða tillögur eru gerðar af hálfu meiri hlutans.

Þetta eru að verða síðustu orðin mín. Ég ætla ekki að vekja upp neina nýja drauga. Ég tel og endurtek það og mér finnst menn ekkert verða minni þó að það sé viðurkennt að auðvitað hefur frv. tekið breytingum. Til þess var ætlast. Ég tel að það hafi verið komið til móts við fjölmörg sjónarmið sem hafa komið fram í umræðum, sem hafa komið fram í umsögnum og að frv. sé betra ef eitthvað er. Það hljóta allir að geta fagnað því hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, hvort sem þeir eru um sinn fulltrúar ríkisvaldsins sem vinnuveitenda eða fulltrúar launþega í starfi hjá ríkinu.