Þróun kaupmáttar launa

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 13:35:44 (6591)

1996-05-28 13:35:44# 120. lþ. 149.1 fundur 490. mál: #A þróun kaupmáttar launa# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[13:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Fyrri spurningin var svohljóðandi: ,,Hvernig var þróun kaupmáttar launa árin 1989--1995?``

Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann fór í aðalatriðum lækkandi frá ársbyrjun 1989 til 1994 en frá þeim tíma hefur hann hins vegar farið vaxandi. Þessi þróun var ekki jöfn heldur lækkaði kaupmátturinn fyrst og fremst í tveimur skrefum. Stærra skrefið, kaupmáttarhrapið var milli áranna 1988 og 1990 og síðan á ný milli áranna 1992 og 1993 eftir að hruns þorskstofns tók að gæta. Vert er að hafa í huga að mikil kaupmáttaraukning varð hins vegar á árunum 1985--1988 og er ekki víst að innstæða hafi verið fyrir þeirri kaupmáttaraukningu. Árið 1991 jókst kaupmátturinn nokkuð vegna óvenjuhagstæðra ytri skilyrða.

Kaupmátturinn á árinu 1994 var um það bil 10% lægri en á árinu 1989. Hækkun á milli ára 1994 og 1995 nam um 4%. Kaupmáttur launa samkvæmt vísitölu Hagstofu Íslands þróaðist með áþekkum hætti umrætt tímabil.

Síðari spurningin hljóðaði svo: ,,Hvernig er áætlað að þróunin verði árið 1996?``

Í þjóðhagsspá í febrúar sl. var reiknað með að kaupmáttur ráðstöfunartekna hækkaði um 3,5% á mann á þessu ári. Á grundvelli framvindunnar það sem af er árinu má hins vegar ætla að kaupmáttaraukningin verði meiri. Kemur þar þrennt til. Í fyrsta lagi hefur atvinna verið meiri en búist var við. Í öðru lagi hefur verðbólga verið nokkru minni og í þriðja lagi virðast laun hafa hækkað heldur meira en reiknað var með. Að öllu samanlögðu virðist stefna í að kaupmátturinn aukist um 4--4,5% á mann á milli áranna 1995 og 1996. Kaupmátturinn samkvæmt launavísitölunni mun líklega hækka ívið minna. Gangi þetta eftir mun kaupmáttur ráðstöfunartekna aukast um 9--8,5% á árinu 1995 og 1996. Þetta er um það bil tvöfalt meiri aukning kaupmáttar en búist er við að jafnaði í Evrópulöndum OECD umrædd tvö ár. Af þessu má sjá að efnahagsbatinn er að skila sér í kjörum heimilanna og fyrir vikið hefur einkaneysla aukist verulega að undanförnu.