Þróun kaupmáttar launa

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 13:38:21 (6592)

1996-05-28 13:38:21# 120. lþ. 149.1 fundur 490. mál: #A þróun kaupmáttar launa# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[13:38]

Fyrirspyrjandi (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir skilmerkileg og greinargóð svör. Það er ánægjulegt að sjá að á seinni hluta þessa tímabils, sem ég er að spyrja um, hefur kaupmáttur aukist verulega. Ég held að það megi rekja að stórum hluta til þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin, sem sat á síðasta kjörtímabili rak í efnahagsmálum, hafa stöðugleika í gengi og aukið frjálsræði í viðskiptum og aðhald í ríkisfjármálum. Mér finnst einnig mjög ánægjulegt að núverandi ríkisstjórn hefur haldið áfram svipaðri eða sömu stefnu sem byggist á sömu grundvallaratriðum og að batinn í efnahagsmálunum heldur áfram. Það er líka greinilegt á þessum tölum að efnahagsbatinn er að skila sér út til þjóðarinnar, til almennings sem mun væntanlega njóta góðs af á þessu ári á sama hátt og á síðasta ári. Ég vonast til þess að sama stöðugleikastefna verði ríkjandi hjá ríkisstjórninni og hún skili sér áfram sem aukinn kaupmáttur í vasa almennings í landinu.