Réttarstaða fólks við gildistöku EES-samningsins

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 13:40:02 (6593)

1996-05-28 13:40:02# 120. lþ. 149.2 fundur 427. mál: #A réttarstaða fólks við gildistöku EES-samningsins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[13:40]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Við gildistöku EES-samningsins 1. jan. 1994 urðu umtalsverðar breytingar á réttarstöðu fólks sem flytur búferlum milli Norðurlandanna. Breytingarnar fólu í sér lakari réttarstöðu fólks frá því sem var áður samkvæmt samningum sem voru í gildi milli Norðurlandanna um ýmis félagsleg réttindi sem hægt væri að flytja milli landanna.

Á fundi ráðherra Norðurlandanna 14. nóv. 1990 sagði að félagsleg réttindi Norðurlandabúa ættu alls ekki að skerðast þó farið væri í víðtæka samningagerð milli Evrópulandanna. Engu að síður skertust ýmis félagsleg réttindi verulega frá því sem áður var, t.d. réttur til atvinnuleysisbóta og önnur réttindi sem voru til staðar samkvæmt almannatryggingalöggjöfinni eins og réttur til sjúkradagpeninga, slysadagpeninga og til greiðslu fæðingarorlofs. Þær skýringar hafa verið gefnar frá skrifstofu Norðurlandaráðs að þessi réttindi hafi skerst vegna þess að þarna hafi verið um mistök að ræða en óvíst er hvenær þau mistök verði leiðrétt.

Það er öllum ljóst að á hverju ári flytja mjög margir Íslendingar til hinna Norðurlandanna, ýmist til þess að búa þar og stunda vinnu og aldrei áður hefur annar eins fjöldi flutt og í tíð þeirrar lánlausu hæstv. ríkisstjórnar, sem nú situr við völd. Það hlýtur því að vera eðlilegt að farið sé yfir þær breytingar sem hafa orðið á réttarstöðu fólks frá því að EES-samningurinn tók gildi og um leið var samningur sem áður hafði verið í gildi milli Norðurlandanna felldur úr gildi. 12. febr. á þessu ári birtust viðtöl í DV við hjón sem voru að fytja til Íslands frá Svíþjóð. Konan hafði nýverið fætt barn en átti ekki rétt á fæðingarorlofi í Svíþjóð og ekki heldur hér á Íslandi og hafði fengið þau svör frá lögfræðingi heilbrrn. að þarna væri um gat í kerfinu að ræða og þau ættu engan rétt samkvæmt lögum. Þau lentu einhvers staðar á milli og enginn lagaleg skýring væri til á því hvers vegna þau fengju ekki greiðslur í Svíþjóð og þá ekki heldur hér.

Í Morgunblaðinu 30. júlí 1994 birtist grein sem Hafdís Ólafsdóttir lögfræðingur skrifar um hvernig réttur til atvinnuleysisbóta var takmarkaður og skertur við EES-samninginn. Það hefur reyndar komið fram í svari frá hæstv. félmrh. við samsvarandi spurningu sem ég beindi til hans að þar hefur ekki orðið nein breyting á. Þær skerðingar sem urðu við EES-samninginn eru enn í gildi. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvaða breytingar nákvæmlega urðu á réttarstöðu fólks, á sviði heilbrigðis- og tryggingamála við flutning milli norrænna landa við gildistöku EES-samningsins. Féllu niður eða breyttust ákvæði í þágildandi samningum milli norrænna landa á þessu sviði? Ef svo er, hafa einhverjar breytingar eða leiðréttingar verið gerðar síðan og þá hverjar? Sé svo ekki, eru þær áformaðar og þá hvenær?