Réttarstaða fólks við gildistöku EES-samningsins

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 13:44:01 (6594)

1996-05-28 13:44:01# 120. lþ. 149.2 fundur 427. mál: #A réttarstaða fólks við gildistöku EES-samningsins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[13:44]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Sú fyrirspurn sem hér liggur fyrir er viðamikil og ég legg áherslu á að erfitt er að svara henni fullnægjandi á stuttum tíma.

Norðurlöndin hafa lengi haft með sér náið samstarf á sviði almannatrygginga við gildistöku EES-samningsins. Í ársbyrjun 1994 höfðu öll Norðurlöndin skuldbundið sig til að beita sín á milli þeim almannatryggingareglum sem gilda við flutning milli landa innan Evrópubandalagsins. Nýir samningar milli þessara landa um almannatryggingar geta því eingöngu átt sér stað á grundvelli EES-reglnanna. Almannatryggingareglur EES-samningsins gilda einkum fyrir ríkisborgara EES-ríkja sem stunda vinnu og fjölskyldur þeirra. Þeir gilda ekki fyrir íbúa Færeyja og Grænlands. Norðurlöndin gerðu því með sér nýjan Norðurlandasamning um almannatryggingar þannig að jafnframt væri tryggður réttur þessa aðila. Með því er tryggt ákvæði samræmi. Tilgangur almannatryggingareglna EES-samningsins er að tryggja að launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar sem kjósa að vinna eða dveljast í öðru aðildarríki en í heimaríki tapi ekki áunnum réttindum við flutninginn jafnframt því sem koma á í veg fyrir ofgreiðslur eða tvígreiðslur. Um bótarétt í hverju landi um sig fer hins vegar eftir lögum og reglum viðkomandi lands.

Eftir gildistöku EES-samningsins hefur á öllum Norðurlöndunum nokkuð borið á kvörtunum yfir því að réttindi hafi verið skert. Í sumum tilvikum eiga kvartanir við nokkur rök að styðjast en í flestum tilvikum er þó um að ræða breytingar á lögum viðkomandi lands. Löndin skilgreina nú betur en áður hverjir fullnægja skilyrðum þess að teljast tryggðir og eftirlit hefur verið aukið þannig að tryggja megi að einungis þeir sem rétt eigi fái bætur. Þá hafa nágrannalönd okkar dregið úr framlögum á sviði velferðarmála og kvartanir má að hluta til rekja beint til slíkra tilvika. Á það ekki síst við um Svíþjóð. Þannig hafa Svíar fellt niður greiðslur fæðingardagpeninga til kvenna við brottflutning þeirra frá landinu. Það er álit sérfræðinga á þessu sviði á öllum Norðurlöndum að þetta sé ekki í samræmi við reglur EES-samningsins. Svíar hafa fengið fyrirspurn vegna þess frá Evrópusambandinu og einnig munu nokkur dómsmál vera rekin út af slíkum málum.

Hluta vandamála má vissulega rekja til þess að einstaklingar fái rangar, misvísandi og ónógar upplýsingar og að sjálfsögðu ber okkur hér á landi að koma í veg fyrir að slíkt gerist. Fjallað hefur verið um þessi mál á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar og nýlega komst vinnuhópur sem skipaður var fulltrúum allra Norðurlanda að þeirri niðurstöðu að ekki væri þörf á breytingum á Norðurlandasamningnum. Hins vegar var ákveðið að vinnuhópurinn héldi áfram störfum og fylgdist grannt með þessum málum og tæki til umfjöllunar gagnrýni sem fram kæmi varðandi einstök atriði. Þannig eru ekki áformaðar neinar breytingar en fylgst verður með þróun mála og breytingar gerðar ef þörf þykir.

Varðandi einstök svið sem falla undir heilbr.- og trmrn. má í stuttu máli segja að í meginatriðum hafi í raun orðið litlar breytingar við gildistöku EES-samningsins og breytingu á Norðurlandasamningnum. Varðandi sjúkratryggingar er meginreglan nú sú að þeir sem stunda vinnu eiga vera tryggðir í því landi sem þeir vinna í en þeir sem ekki eru á vinnumarkaði eru tryggðir í búsetulandi. Læknishjálp og aðstoð sem menn eiga rétt á fer eftir lögum þess lands sem þeir eru tryggðir í.

Íslensk almannatryggingalög kveða nú á um sex mánaða biðtíma eftir sjúkratryggingu. Ákvæði um biðtíma gildir þó í raun ekki gagnvart þeim sem flytja til landsins frá EES-landi nema þeir hafi verið ótryggðir fyrir flutning. Þegar um er að ræða tímabundinn rétt til bóta í peningum, t.d. sjúkradagpeningum eða fæðisdagpeninga, greiðist bætur frá landinu þar sem viðkomandi var í vinnu þegar veikindi kom upp og samkvæmt lögum þess lands, jafnvel þótt viðkomandi sé búsettur í öðru landi. Þetta er í meginatriðum sama regla og áður gilti. Sú breyting hefur orðið á sviði lífeyristrygginga að í stað þess að menn fái allan lífeyri greiddan frá búsetulandi hafi þeir búið þar í þrjú ár kveða nýjar reglur á um að lífeyrir skuli greiddur í hlutfalli við áunnin réttindi frá hverju landi um sig. Lágmarksskilyrði vegna ellilífeyris hefur samkvæmt íslenskum lögum verið þriggja ára búseta hér á landi. Samkvæmt íslenskum almannatryggingalögum skal greiða lífeyri í hlutfalli við lögheimilistíma.

Í íslenskum lögum er gert skilyrði um þriggja ára búsetu hér á landi áður en til lífeyrisréttinda sé stofnað. Samkvæmt samningum ber nú að taka tillit til áunninna trygginga, starfs- eða búsetutíma til þess að stytta þennan tíma eins og á við um ellilífeyri. Þó er ekki skylt að greiða lífeyri vegna tímabila sem eru styttri en eitt ár.