Meðferð brunasjúklinga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:00:54 (6600)

1996-05-28 14:00:54# 120. lþ. 149.3 fundur 521. mál: #A meðferð brunasjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Lýtalækningadeild er sú sérhæfða sjúkradeild sem eðli málsins samkvæmt hefur annast meðferð brunasjúklinga á Landspítalanum og raunar fyrir landið allt. Sú deild, 13A, er vegna smæðar óhentug rekstrareining og þegar leita þurfti sparnaðarleiða valdi stjórn sjúkrahússins að fenginni tillögu faglegra yfirmanna að loka deildinni og flytja meðferð brunasjúklinga á þá handlæknisdeild spítalans sem einnig hýsir þvagfæraskurðlækningar og almennar handlækningar.

Sú reynsla sem fengist hefur af þessum samrekstri hefur ekki orðið eins og vonast hafði verið til. Sérhæfing í lækningum og hjúkrun er orðin svo mikil að verulegir annmarkar reynast á því að reka á sama gangi þrjár mismunandi sérgreinar jafnvel þótt þær séu allar á sviði skurðlækninga. Einkum hefur verið talið að sjúklingar með brunasár þyrftu betri aðstöðu þótt starfsfólk hafi ætíð gert sitt besta. Það hefur jafnvel komið til álita að flytja þessa meðferð að hluta úr landi en slíkt er ekki í takt við þá almennu ósk að annast sem mest meðferð sjúkra hér heima enda eigum við til þess ágætlega hæft starfsfólk. Kostnaður af slíkum aðgerðum er líka fljótur að safnast upp eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Því er verið að kanna alla möguleika á hvern hátt megi best standa að þessari þjónustu. Einn þeirra möguleika er að flytja starfsemina til baka og opna aftur lýtalækningadeildina á sínum fyrra stað en líklegt er að slíkur flutningur muni kosta a.m.k. 14 millj. vegna nauðsynlegra breytinga. Deildin verður áfram óhagstæð í rekstri þar sem stærðin breytist ekki frá því sem áður var. En rekstrarkostnaður er talinn vera yfir 30 millj. á ári.

Ljóst er að húsnæði Landspítalans er orðið mjög þröngt og verið er að kanna hvernig húsnæðismálum spítalans verði best fyrir komið í framtíðinni. Raunar þarf að skoða lausnir á skipulagi húsnæðismála sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu í heild. Flutningur lýtalækningadeildar ef af verður eins og hér er lýst verður því að skoðast sem bráðabirgðalausn sem mikilvægt er að verði í senn í sem mestu samræmi við heildarlausnir í húsnæðismálum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Standa vonir til þess að af þessum breytingum geti orðið ekki seinna en um næstu áramót.