Merkingar afurða erfðabreyttra lífvera

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:10:28 (6605)

1996-05-28 14:10:28# 120. lþ. 149.4 fundur 494. mál: #A merkingar afurða erfðabreyttra lífvera# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:10]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég ber fram fyrirspurn á þskj. 853 til hæstv. umhvrh. um merkingar afurða erfðabreyttra lífvera. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hver er afstaða ráðherra til þess álitaefnis að hafi vara í sér fólgna afurð erfðabreyttra lífvera skuli það tekið fram á umbúðum hennar?

2. Hver er og hefur verið afstaða ríkisstjórnarinnar og umhverfisráðuneytisins til væntanlegrar tilskipunar Evrópusambandsins um ný matvæli (novel foods) þar sem fjallað er um framangreint álitamál?

Þetta efni kom til umræðu í þinginu 7. mars sl. í tengslum við frv. um erfðabreyttar lífverur sem þá var til afgreiðslu í þinginu. Þá vitnaði ég m.a. til minnisblaðs sem umhvrn. sendi umhvn. dagsett 22. febr. sl. þar sem fram kom að Noregur og Danmörk hefðu stutt þá stefnu andstætt því sem gert var ráð fyrir í tilskipun Evrópusambandsins, að allar afurðir erfðabreyttra lífvera í vörum skyldu merktar til neytenda. Svíar höfðu haldið sömu stefnu fram. En jafnframt var tekið fram í minnisblaðinu og það er orðrétt tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Noregur og Danmörk hafa sett fram kröfur um að öll matvæli sem innihalda erfðabreyttar lífverur eða afurðir þeirra verði merkt sérstaklega sem Ísland hefur ekki stutt. Samkvæmt nýlegum upplýsingum er stór hluti ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu mótfallinn svo ströngum merkingarskilyrðum.``

Hæstv. umhvrh. tjáði sig um málið í umræðunni og var mjög eindreginn í sínu viðhorfi, þ.e. að að hans mati væri það fráleit stefna að krefjast ekki slíkra merkinga en málið hefði ekki komið inn á hans borð. Það upplýstist ekki í umræðunni af hans hálfu þá hver hefði um þetta fjallað í íslenska stjórnkerfinu. En væntanlega hefur hæstv. ráðherra nú farið yfir málið af tilefni þessarar fyrirspurnar og ég vænti þess að hann upplýsi okkur um það hver hefur verið afstaða ríkisstjórnarinnar í þessu máli reynist það rétt vera sem ég vitnaði til í minnisblaðinu að Ísland hefði lagst gegn eða ekki stutt stefnu annarra Norðurlanda í sambandi við þetta mikilsverða mál.

Ég get getið þess, virðulegur forseti, að nær hundrað neytendasamtök víða um heim hafa gert sömu kröfu og hin Norðurlöndin en sem Ísland virðist ekki hafa treyst sér til að styðja innan EES.