Merkingar afurða erfðabreyttra lífvera

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:14:08 (6606)

1996-05-28 14:14:08# 120. lþ. 149.4 fundur 494. mál: #A merkingar afurða erfðabreyttra lífvera# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:14]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er rétt eins og fram kemur í máli hv. fyrirspyrjanda, 4. þm. Austurl. að við áttum nokkur orðaskipti um þetta mál fyrr á þessum vetri í tengslum við frv. um erfðabreyttar lífverur sem þá var til umfjöllunar en er orðið að lögum. Ég hafði þá þann vara á í ummælum mínum að svarið þyrfti að helgast nokkuð af því að ég setti fram mína persónulegu skoðun og hefði ekki komið að málinu eða skoðað það ítarlega. En orðrétt má hafa eftir það sem ég sagði í þessum umræðum. Það var m.a., með leyfi forseta:

,,Ég vil að neytendur hafi sem gleggstar upplýsingar um það hvað verið er að selja þeim.`` Og svo aftur síðar: ,,... að mönnum sé algerlega ljóst hvað þeir eru að kaupa ...``

Síðan hef ég rætt þetta við starfsmenn ráðuneytisins og farið ítarlega yfir það á hvaða stigi málið er og hvernig ráðuneytið svo og Hollustuvernd ríkisins og embættismenn þar sem hafa unnið að málinu meta hvernig málið er nú statt. Ég vil því gera hv. fyrirspyrjanda og hv. þm. öðrum grein fyrir því. Evrópuþingið hefur lokið 2. umr. um fyrirliggjandi drög að tilskipun ESB um ný matvæli þar sem tekið er á þessum merkingum. Þingið hefur samþykkt nokkrar mikilvægar breytingar sem varða merkingu þessara vörutegunda og nái þær fram að ganga mun það hafa þau áhrif í för með sér að merkja þarf sérstaklega öll matvæli sem eru erfðabreytt eða framleidd með erfðabreyttum aðferðum, hafi þau önnur einkenni en sambærilegar vörur. Þetta þýðir að væntanlega þarf ekki að merkja matvæli sem framleidd hafa verið með erfðabreyttum hvötum, svo sem osta. Einnig er í brtt. lagt til að ákvæði tilskipunarinnar og sérmerkingar erfðabreyttra matvæla gildi jafnt um landbúnaðarafurðir, t.d. tómata sem og unnin matvæli, t.d. tómatsósu sem tekin er hér sem dæmi.

[14:15]

Þá er gert ráð fyrir að gildistöku verði flýtt og biðtími gildistökunnar verði þrír mánuðir í stað tólf mánaða. Tilskipunin ásamt breytingartillögum verður nú tekin til skoðunar í ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB og annaðhvort verða þær samþykktar eða hafnar verða sáttaumleitanir. Samkvæmt ofangreindu má búast við því að Evrópusambandið samþykki tilskipun um ný matvæli sem m.a. fjallar um áðurnefndar merkingar á næstu mánuðum.

Þessi mál hafa verið til umræðu milli fulltrúa Íslands og Noregs í Brussel frá því um miðjan desembermánuð sl. en þá komu fyrst til umræðu ákvæði um merkingar í tillögum um að reglugerð ESB um ,,ný matvæli og slíka efnisþætti`` sem mun vera yfirskrift reglugerðarinnar. Kemur þá að þessu sem við ræddum í vetur, við hv. fyrirspyrjandi, um samskipti Íslands annars vegar og hinna Norðurlandanna.

Í lok febrúar var haldinn hér á landi samráðsfundur um matvælamálefni innan ramma EES með norskum embættismönnum og var þar ákveðið að skoða málin frekar og leita leiða til að ná samstöðu milli EFTA-ríkjanna um afstöðu vegna merkingar matvæla sem munu falla undir reglur ESB. Í tengslum við umræður um reglur um merkingu umbúða fyrir ný matvæli innan EES-samningsins hefur af Íslands hálfu verið lögð áhersla á eftirfarandi:

1. Fyrir afurðir erfðabreyttra lífvera sem eru ekki frábrugðnar hefðbundnum vörum í samsetningu, notkun eða útliti er ekki talin ástæða til að sérmerkja umbúðir. Nái breytingartillaga Evrópuþingsins um að ekki þurfi að merkja matvæli sem framleidd hafa verið með erfðabreyttum hvötum fram að ganga hafi þær sömu eiginleika og sambærilegar vörur, hafa þessi sjónarmið fengið hljómgrunn.

2. Ef breyting verður á efnisþáttum, t.d. próteinum, þannig að varan geti valdið ofnæmi, óþoli eða hafi önnur heilsufarsleg áhrif verði umbúðir merktar. Sama gildir um siðfræðilega þætti sem geta tengst tilteknum hópum fólks, t.d. fólki sem ekki borðar ákveðnar kjötafurðir, grænmetisætum eða fólki sem borðar ekki ákveðnar dýraafurðir. Á fundi norrænu embættismannanefndarinnar um matvæli og málefni sem haldin verður í lok þessa mánaðar munu þessi mál frekar rædd, en æskilegt er að um þau náist sameiginleg niðurstaða milli Noregs og Íslands. Þetta vil ég undirstrika út af þeim ummælum mínum sem hér hefur verið vitnað til. Ég tel auðvitað æskilegt að við leggjum það fyrst og fremst til að þarna náist samstaða þannig að þessar merkingarreglur geti verið eins. Það hlýtur að auðvelda og einfalda málsmeðferð alla. Að öðru leyti tökum við afstöðu til málsins þegar það liggur fyrir hvort samstaða næst og hvort við förum þá fram með sérreglur ef ekki verður samkomulag.

Svarið við seinni lið fyrirspurnarinnar er síðan að hvorki ríkisstjórn né umhvrn. hafa tekið formlega afstöðu til tillagna að reglum ESB ,,um ný matvæli og slíka efnisþætti``. Málið er til umræðu meðal embættismanna með það að leiðarljósi að ná sameiginlegri niðurstöðu, eins og ég hef áður lýst. Eins og mál hafa þróast og að því gefnu að sameiginleg niðurstaða náist með EFTA-þjóðunum á Evrópska efnahagssvæðinu sýnist mér að allt bendi til þess að við getum samþykkt og tekið upp í okkar löggjöf væntanlega tilskipun ESB um ný matvæli með þeim fyrirvörum sem ég hef áður greint frá um að samkomulag eða samstaða náist.