Efnistaka úr Seyðishólum

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:24:31 (6609)

1996-05-28 14:24:31# 120. lþ. 149.5 fundur 509. mál: #A efnistaka úr Seyðishólum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Undanfarna tvo áratugi hafa Íslendingar í vaxandi mæli fundið hjá sér hvöt til þess að leita út í náttúruna eftir friði og ró frá ysi og þys borgarlífsins. Þessi þróun sést best á því að árið 1973 voru um 2.400 sumarhús á landinu öllu en eru í dag talin vera um 10 þúsund. Hér áður var yfirleitt um frekar lítil hús að ræða með mjög takmörkuðum þægindum, en í dag þykir sjálfsagt að hafa heitt og kalt vatn og rafmagn í slíkum húsum. Verð á nútímasumarhúsi er einnig í takt við það og er fullbúinn bústaður með lóðakaupum og heimtaugagjöldum talinn vera á bilinu 5--10 millj. kr. Hér er því í mörgum tilfellum um að ræða eign sem slær upp í verðgildi íbúðar.

Gjöld þessara sumarhúsaeigenda til landeigenda og sveitarfélags eru í samræmi við það og gjöld af meðalhúsi eru um 100 þús. kr. á ári til sveitarfélags og þjónustuaðila. Flestir þessir bústaðir eru í grennd við höfuðborgarsvæðið, í Árnessýslu eða þar um slóðir. Þar eru taldir vera um 3 þúsund bústaðir í einkaeigu og í eigu félaga og samtaka launafólks. Af þessum 3 þúsund bústöðum í sýslunni eru í Grímsneshreppi einum taldir vera um 1.500 bústaðir.

Það uppgötvaðist á sl. ári fyrir hreina tilviljun að Grímsneshreppur hafði heimilað gjalltöku úr svonefndum Seyðishólum rétt við sumarhúsasvæðið í hreppnum. Þegar upplýsingar fengust kom fram að hér var ekki um neitt smámagn að ræða, heldur samning upp á 12 millj. rúmmetra á næstu 12 árum. Þetta þýðir að á 5 mínútna fresti flesta daga vikunnar munu stórir gjallflutningabílar þeysast eftir veginum frá Seyðishólum í gegnum Þrastarskóg og til Þorlákshafnar. Þetta þýðir mikla hættu fyrir fólk á svæðinu að mati sumarhúsaeigenda og verðhrun á bústöðum á þessu svæði. Kyrrð og ró í sumarhúsum er rofin af stöðugum hávaða bíla og stórra vinnuvéla. Hér er um gríðarlegt hagsmunamál sumarhúsaeigenda að ræða. Hér er einnig um mikil náttúruspjöll að ræða að mati Náttúruverndarráðs. Í engu virðist hafa verið leitað álits þessara aðila á þessum framkvæmdum. Slík vinnubrögð tíðkast ekki lengur hjá þróuðum sveitarfélögum að hunsa hagsmuni þeirra sem þar dvelja og eiga eignir. Það er ekki í takt við góða stjórnsýsluhætti.

Lítum aðeins á tekjur þjónustuaðila í Grímsneshreppi af sumarhúsum þar. Ef miðað er við kostnað af einu húsi eins og hann er í dag greiða sumarhúsaeigendur til ýmissa þjónustuaðila í hreppnum um 150 millj. kr. á ári. Af þeirri tölu eru fasteignagjöld til Grímsneshrepps 16,5 millj. sem nemur 38% af öllum tekjum hreppsins. Þrátt fyrir þessar miklu tekjur sveitarfélagsins af sumarhúsum eru engin viðbrögð af hálfu fyrirsvarsmanna hreppsins við kvörtunum sumarhúsaeigenda. Þetta er að sjálfsögðu íhugunarefni.

Þegar málið er skoðað kemur í ljós að sveitarfélögin Grímsneshreppur og Selfossbær eru eigendur námunnar og náman er í landi oddvita Grímsneshrepps. Oddvitinn sem á að gæta hagsmuna íbúanna jafnt sem hreppsins er beggja vegna borðsins. Hér er um mikla hagsmunaárekstra að ræða. Það er ekki ásættanlegt, herra forseti, að hagsunir sumarhúsaeigenda séu svo gróflega hunsaðir sem hér um ræðir bótalaust. Því hef ég borið fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. umhvrh.:

1. Er ráðherra kunnugt um mikla andstöðu þúsunda sumarhúsaeigenda í Árnessýslu við þá fyrirætlan sveitarstjórnar Grímsneshrepps að leyfa efnistöku úr Seyðishólum?

2. Er það að mati ráðherra merki um góða stjórnsýsluhætti að Grímsneshreppur sé í senn eftirlitsaðili með að samningar séu haldnir um malarnámið, samningsaðili námueiganda og umsagnaraðili um fyrirhugaðar framkvæmdir?

3. Var félögum sumarhúsaeigenda á svæðinu gefinn kostur á að gefa ráðherra sitt álit um málið?

4. Hyggst ráðherra veita umbeðið leyfi fyrir efnistöku einhliða eða eru uppi hugmyndir um að ná samkomulagi við sumarhúsaeigendur á svæðinu?