Efnistaka úr Seyðishólum

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:32:24 (6612)

1996-05-28 14:32:24# 120. lþ. 149.5 fundur 509. mál: #A efnistaka úr Seyðishólum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir hans svör í þessu máli. Það er skiljanlegt eins og kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að sumarhúsaeigendur hafi áhyggjur. Að þeirra dómi hefur ekki verið leitað til þeirra sem hagsmunaaðila í þessu máli að neinu leyti heldur hafa þeir þurft að leita eftir öllum upplýsingum sjálfir og auglýsingar sem um þetta mál hafa fjallað hafa ekki verið kynntar þeim heldur hangið uppi í sveitinni en það hefur ekki verið þeim beinlínis aðgengilegt.

Það er ljóst að í svona máli eiga aðilar sem standa í slíkum deilum ekki fulltrúa í sveitarstjórnum sem eru venjulegast þeir þrýstihópar sem mest áhrif hafa á hreppsnefndir. Þess vegna eru kannski þessi mál þyngri í vöfum gagnvart þessum hagsmunaaðilum en mörgum öðrum. Ég einfaldlega vona það að ráðherra sjái til þess að málið fái þá meðferð sem talist getur eðlileg í samskiptum sveitarstjórna og aðila sem þar eiga hagsmuni því það er náttúrlega öllum aðilum fyrir bestu að deilur sem þessar séu leystar í sátt og samlyndi og þeir sem telja á sig hallað fái úrlausn sinna mála.