Losun koltvísýrings

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:52:33 (6619)

1996-05-28 14:52:33# 120. lþ. 149.6 fundur 512. mál: #A losun koltvísýrings# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:52]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að koma með þessa fyrirspurn fyrir þingið. Mér sýnist á svörum hæstv. ráðherra að í raun og veru sé ekki til nein áætlun um það hvernig eigi að standa við þær skuldbindingar sem voru undirritaðar af þáv. umhvrh., Eiði Guðnasyni, og kynntar með því fororði að farið yrði þá þegar í að vinna þessa áætlun, þ.e. hvernig mætti standa við hana. Það vill því miður allt of oft brenna við að undirritaðir séu fyrir Íslands hönd ýmsir samningar og skuldbindingar á alþjóðavettvangi áður en farið er yfir það hvernig skuli staðið við þær. Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er í raun marklaust plagg vegna þess að útfærsluna vantar. Það hefur verið nægur tími fram til þessa til að ganga frá þeirri útfærslu þannig að hægt verði að standa við þá samninga sem þarna voru undirritaðir.