Forsendur vistvænna landbúnaðarafurða

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:08:08 (6625)

1996-05-28 15:08:08# 120. lþ. 149.8 fundur 525. mál: #A forsendur vistvænna landbúnaðarafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:08]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. landbrh. sem er prentuð á þskj. 977 um forsendur vistvænna landbúnaðarafurða. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hvað veldur því að ástand bithaga er ekki ein af forsendum gæðakrafna um »vistvænar landbúnaðarafurðir« samkvæmt reglugerð nr. 89, um sértækt gæðastýrða íslenska landbúnaðarframleiðslu, frá 29. janúar 1996?

2. Er ráðherra reiðubúinn að breyta reglugerðinni þannig að tryggt verði að afurðir eins og kindakjöt sem fær vottun um að vera vistvænt séu ekki framleiddar á ofbeittu landi?

Reglugerð frá 29. jan. 1996 sem ber þetta merkilega nafn, um sértækt gæðastýrða íslenska landbúnaðarframleiðslu, kveður á um skilyrðin til þess að afurðirnar teljist vistvænar landbúnaðarafurðir eins og sagt er í 2. gr. um markmið en 1. gr. reglugerðarinnar hefst með þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Reglugerð þessi tekur til hvers konar framleiðslu, vinnslu, flutninga, geymslu og dreifingar á sértækt gæðastýrðum íslenskum landbúnaðarafurðum með áherslu á umhverfisvernd.``

Síðan kemur upptalningin á kröfunum og þar er hvergi minnst einu orði á undirstöðuna, bithagann, landið sem á að framleiða þessar afurðir á að því er varðar t.d. kindakjöt. Að vísu eru einnig laxfiskar taldir hér til búfjár. Það er eitt út af fyrir sig og má mín vegna falla undir þá skilgreiningu. Það var hins vegar ekki talið í mínu ungdæmi að silungurinn í Lagarfljóti væri hluti af búfé manna á Héraði. En hér er um mjög stórt mál að ræða.

Þessi reglugerð er sett á grundvelli búvörusamningsins, tiltekinnar greinar í þeim samningi. Það mun vera 67. gr. búvörusamningsins og er auðvitað mjög mikilvæg grein sem slík og fátt er mikilvægara íslenskum landbúnaði en að það takist að koma fótum undir lífræna ræktun landbúnaðarafurða til að auka fjölbreytni og til þess eins og hér er yfirlýst markmiðið að stuðla að vistvænni framleiðslu, einnig sauðfjárafurða. Þá þýðir ekki bara að vísa til hollustukrafna og gleyma undirstöðunni. Hvernig í ósköpunum dettur hæstv. ráðherra í hug að skrifa undir slíkt? Ég held að það hljóti að vera mistök hjá hæstv. ráðherra og vænti þess að hann lýsi því yfir að hann muni breyta þessu við fyrstu hentugleika.