Forsendur vistvænna landbúnaðarafurða

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:16:58 (6628)

1996-05-28 15:16:58# 120. lþ. 149.8 fundur 525. mál: #A forsendur vistvænna landbúnaðarafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:16]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Það er mjög sérkennilegt mál sem við ræðum hér. Hverjum dettur í hug sem les þessa reglugerð, m.a. 2. gr. hennar um markmið, en hér sé um alhliða kröfur að ræða til vistrænnar framleiðslu eða vistvænnar, það stendur vistrænnar í markmiðsgreininni. Það er sérstaklega vísað til þess og síðan á að selja afurðirnar undir sérstöku merki, væntanlega um það að þær séu framleiddar á tiltekinn hátt sem standist þessar kröfur. Ég held að menn séu á stórhættulegu spori. Þegar það verður upplýst, sem verður auðvitað gert, það verður ekki gengið fram hjá því að það verður opinbert fyrr en seinna að menn séu í plati að reyna að koma út afurðum út á einhverja gæðastýringu sem tekur hins vegar ekki tillit til undirstöðunnar, gróðursins, bithagans. Hvernig dettur mönnum í hug að fara á flot með slíkt? Mér finnst þetta aldeilis með ólíkindum.

Ég hvet hæstv. ráðherra, sem tók að mörgu leyti undir það sem ég var að bera fram, til að láta endurskoða þetta mál hið fyrsta til þess að menn lendi ekki út í kviksyndi með þetta og þetta verði hreinasta búmerang fyrir sauðfjárræktina í landinu, fyrir íslenskan landbúnað og þjóðina alla og til skammar þegar það verður upplýst að menn séu á platforsendum að reyna að koma út sauðfjárafurðum án þess að þetta liggi fyrir.

Í reglugerðinni er tíunduð verklýsing og það á að taka til hvers einstaks bónda. Ég vil að lokum, virðulegur forseti, spyrja hæstv. landbrh. að því hvert álit Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sé á vinnubrögðum sem þessum. Hæstv. ráðherra getur væntanlega upplýst það.