Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:26:41 (6631)

1996-05-28 15:26:41# 120. lþ. 149.10 fundur 514. mál: #A Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:26]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er: Hvernig er afgreiðslutíma Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns háttað? Er fyrirhuguð breyting á afgreiðslutíma safnsins? Svarið við þessari spurningu er: Hinn reglulegi afgreiðslutími Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns var á árinu 1995 sem hér segir: Janúar--maí og september--desember mánudaga--föstudaga 9--19, laugardaga 10--17, samtals 57 tímar í viku. Júní--ágúst mánudaga--föstudaga 9--17, laugardaga 13--17, samtals 44 tímar á viku.

Hinn reglulegi afgreiðslutími var lengdur 1. mars 1996 með því að opnað er kl. 8.15 í stað 9 á virkum dögum. Að teknu tilliti til þess er safnið nú opið í um það bil 61 tíma í viku nema sumarmánuðina óbreytt 44 tíma í viku. Á próftíma í apríl--maí og nóvember--desember 1995 og apríl--maí 1996 var safnið haft opið til kl. 22 virka daga eða 76 tíma í viku með skertri þjónustu um einn mánuð í hvert sinn.

Hvort um lengingu afgreiðslutíma verður að ræða á próftíma í nóvember--desember 1996 ræðst væntanlega af því hver fjárhagsstaða safnsins verður þegar svo er liðið á árið. Í beiðni stofnunarinnar um rekstrarfjárveitingu í fjárlögum 1997 er miðað við að afgreiðslutími gæti orðið sem hér segir: Janúar--maí og september--desember mánudaga--föstudaga 8.15--19, laugardaga 10--18, sunnudaga 13--18 eða 67 tímar í viku. Júní--ágúst mánudaga--föstudaga 9--17, laugardaga 13--17, samtals 44 tímar í viku. Þá er í fjárlagabeiðni safnsins fyrir 1997 gert ráð fyrir að lenging til kl. 22 á kvöldin vari í þrjá mánuði í stað tveggja mánaða til þessa. Áætlað er að lenging afgreiðslutíma á árinu 1997 að því marki sem hér um ræðir auki kostnað um a.m.k. 4 millj. kr. miðað við árið 1996. Ekkert verður á þessu stigi fjárlagaundirbúnings fullyrt um hvort breytingin muni rúmast innan rekstraráætlunar safnsins.

Taka ber fram að auk framboðs lessæta í Þjóðarbókhlöðu eru nokkur hundruð lessæti í hinum ýmsu byggingum háskólans sem eru í flestum tilvikum opnar til kl. 22 alla daga vikunnar án þess að um bókasafnsgæslu sé að ræða.

Þá er spurt: Er afgreiðslutíminn frábrugðinn því sem tíðkast um sambærileg söfn annars staðar á Norðurlöndum? Svarið er: Frá Landsbókasafni Íslands -- Háskólabókasafni hafa borist upplýsingar um afgreiðslutíma í 22 þjóðbókasöfnum og háskólabókasöfnum í Danmörku, Noregi, Finnland og Svíþjóð. Ef einungis er miðað við vetrartíma er afgreiðslutími í þessum söfnum allt frá 35 klukkustundum til 79 klukkustunda í viku. 9 safnanna hafa lengri afgreiðslutíma en Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn en 13 styttri. Einungis þrjú þessara safna eru opin á sunnudögum.

Þá er spurt að lokum: Hversu miklum fjármunum er ætlað að verja til bókakaupa fyrir safnið á þessu ári? Fjárveiting til ritakaupa í Landsbókasafni Íslands á árinu 1996 er 43 millj. kr., sama fjárhæð og miðað var við í fjárlögum 1995. Af hálfu safnsins er talið að þurft hefði allt að 62 millj. kr. til að halda í horfinu um tímaritsáskriftir og bókakaup. Bókasafnsnefnd Háskóla Íslands og Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns hyggjast beita sér fyrir þróunarvinnu sem beinist að því m.a. að notkun tímarita verði athuguð og fundinn grundvöllur að eðlilegri skiptingu ritakaupafjár milli deilda háskólans og milli almennra þarfa bókasafnsins. Aðrir kostir en bein kaup yrðu athugaðir og athygli sérstaklega beint að möguleikum upplýsingatækninnar á þessu sviði.