Átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:37:15 (6636)

1996-05-28 15:37:15# 120. lþ. 149.11 fundur 531. mál: #A átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:37]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Það er reyndar skoðun mín að þrátt fyrir það að hæstv. ráðherra segist ekki telja það í sínum verkahring að hlutast til um innri málefni Ríkisútvarpsins hefur hæstv. ríkisstjórn svo sem ekkert flökrað við því að hlutast til um innri málefni félagasamtaka þegar svo ber undir en þarna er þó virkilega nauðsyn á að taka á. Ég tel að þegar upplýsingar liggja fyrir eins og þær sem fram komu í skýrslunni sé nauðsynlegt að hæstv. ráðherra skipti sér af því.

Ég bendi á, virðulegi forseti, að í ritinu Nordisk kontakt eru fréttir frá Íslandi og það sýnir í fyrsta lagi hvað eru stjórnmál í dag. Það er fyrst talað um þorskinn, síðan um forsetaembættið og það er sagt frá fjórum frambjóðendum til forseta. Í þessu eru myndir af þessum fjórum frambjóðendum sem þá eru komnir fram: Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Pétursdóttir, Pétur Hafstein og Ólafur Ragnar Grímsson. Síðan er æviágrip Ólafs Ragnars Grímssonar og Péturs Hafsteins, sagt frá ferli þeirra en síðan kemur bara aðrir frambjóðendur, og örstutt um konurnar. Þetta sýnir í raun hver staða okkar er og það er hæstv. ráðherra að skipta sér af þessu.