Átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:41:45 (6639)

1996-05-28 15:41:45# 120. lþ. 149.11 fundur 531. mál: #A átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:41]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Jafnrétti karla og kvenna eru óumdeild, yfirlýst markmið í þjóðfélaginu. Sú stefna hefur verið mörkuð af Alþingi og á að fylgja eftir af alþingismönnum. Ég virði skoðanir menntmrh. að ekki eigi um of að vera með íhlutun í Ríkisútvarpið eða á nokkurn hátt að hafa afskipti af málfrelsi eða tjáningarfrelsi á þeim bæ frekar en öðrum. En við sem styðjum Ríkisútvarpið teljum að Ríkisútvarpið hafi einmitt samfélagslegum skyldum að gegna. Þegar um svo brýnt mál er að ræða sem jafnrétti karla og kvenna sem berjast þarf fyrir við hvert það tækifæri sem gefst má Ríkisútvarpið ekki sitja hjá og ég tel að ráðherrann geti haft veruleg áhrif þó að hann fari ekki að skipta sér af þessum reglugerðum heldur geti hann haft úrslitaáhrif á þessu sviði með tilmælum og hvatningu.