Átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:45:13 (6642)

1996-05-28 15:45:13# 120. lþ. 149.11 fundur 531. mál: #A átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Svar ráðherrans var að hann ætlar ekki að beita sér og það fannst mér afar svekkjandi og rislítið svar. Af hverju á ekki að beita sér? Jú, af því að það er um innra starf Ríkisútvarpsins að ræða. Það á að hafa jafnrétti í heiðri og þess vegna á ekki að hreyfa við þessu máli.

Ríkisútvarpið hefur ekki jafnrétti í heiðri, það er málið. Það hefur bara ekki jafnrétti í heiðri. Það sýna allar tölur þannig að skilaboð hæstv. ráðherra eru að það á bara að drolla áfram í sömu förum. Ég spyr: Innra starf, hvað er það? Er það íhlutun um innra starf þegar reynt er að auka hlut kvenna t.d. í nefndum ráðuneyta? Er það íhlutun í innra starf ráðuneyta? Er það íhlutun í innra starf skóla að hvetja stúlkur til að velja óhefðbundnar greinar? Er það svo hræðilegt? Er það íhlutun í innra starf skóla? Ég átta mig ekki á þessum málflutningi. Það er alveg ljóst að Norðmenn settu af stað átak þó að þeir væru með miklu hærra hlutfall kvenviðmælenda í fréttatímum sínum. Þeir sjá samt ástæðu til þess að fara í átak. En við ætlum að sitja hjá og bara bíða eftir að það verði einhvers konar viðhorfsbreyting hugsanlega seinna.

Ég segi það alveg hreint út að ég sem ung kona í stjórnmálum, horfandi upp á það hvernig okkar jafnréttismál eru, sé að það er afar langt í land þegar maður fær svona svör. Hæstv. ráðherra segir: ,,Það má ekki koma nálægt þessu. Þetta eru innri mál Ríkisútvarpsins. Það er bara best að sitja á hliðarlínunni og láta málin drolla í sama farvegi.`` Þetta er afar svekkjandi.