Endurskoðun lögræðislaga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:49:57 (6644)

1996-05-28 15:49:57# 120. lþ. 149.12 fundur 515. mál: #A endurskoðun lögræðislaga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:49]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Allt frá árinu 1988 hafa hagsmunasatök fatlaðra bent á nauðsyn þess að endurskoða ákvæði lögræðislaga um sjálfræðissviptingu, en því er m.a. beitt þegar þroskaheftir einstaklingar þurfa að undirgangast aðgerðir á borð við fóstureyðingar eða ófrjósemisaðgerðir. Nágrannaþjóðir okkar hafa fyrir löngu fundið aðrar aðferðir til að tryggja það að rétt sé að málum staðið þegar í hlut eiga t.d. þroskaheftir eða aðrir sem þurfa að fá upplýsingar settar fram á auðskiljanlegan hátt. Í Noregi og Svíþjóð hafa t.d. verið lögfestar heimildir í lögræðislögum til að skipa lögráða fólki sem þarf aðstoð við að gæta hagsmuna sinna, t.d. vegna andlegrar fötlunar, sérstakan tilsjónarmann.

Í þessum nágrannalöndum okkar er þessi leið jafnan tekin fram yfir lögræðissviptinguna nema sérstakar aðstæður mæli með henni. Þykir það hafa gefið góða raun og hefur leitt til mikillar fækkunar lögræðissviptingarmála.

Til að undirstrika alvöru þess að svipta t.d. þroskaheftan einstakling sjálfræði er rétt að benda á að ef það á að vera hægt að endurheimta sjálfræði fólks þarf ástæða sjálfræðissviptingarinnar að vera gengin til baka. Þar sem þroskahefting er ástand sem ekki gengur til baka er lítil von til þess að þeir sem í þessu lenda muni endurheimta sjálfræði sitt. Það er ekki óeðlilegt að álykta að konur verði í mun meira mæli fyrir því að lenda í aðstæðum sem samfélagið sér ástæðu til að grípa inn í með lögræðissviptingu því þessari aðferð hefur oft verið beitt þegar þroskaheftar konur hafa undirgengist ófrjósemisaðgerð eða fóstureyðingu. Því snýst málið bæði um jafnréttismál á milli kynja sem og mannréttindamál minnihlutahópa.

Hæstv. dómsmrh. Endurskoðun á lögræðislögum hefur staðið yfir í um það bil áratug ef upplýsingar mínar eru réttar. Á þessum tíma hafa hagsmunasamtök þroskaheftra ítrekað reynt að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við dómsmrn. Fram hefur komið að nefnd sem samdi frv. um réttindi sjúklinga tekur undir þessi sjónarmið og beinir þeim tilmælum til dómsmrn. að þetta ákvæði verði endurskoðað. Þess vegna spyr ég:

Er þess að vænta að þetta brýna mannréttindamál sem hér um ræðir, hljóti viðhlítandi meðferð og að ákvæði laganna hvað sjálfræðissviptingu varðar verði færð í nútímalegra horf og muni koma til Alþingis til meðferðar og afgreiðslu?