Endurskoðun lögræðislaga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:57:21 (6647)

1996-05-28 15:57:21# 120. lþ. 149.12 fundur 515. mál: #A endurskoðun lögræðislaga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:57]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessi hvatningarorð hv. 9. þm. Reykv. En varðandi upplýsingar frá ráðherra um að nefndin sem mun skila síðar á þessu ári sé með ákvæði inni um að svipta menn tímabundið lögræði og viðkomandi öðlist lögræði aftur sjálfkrafa, þá held ég að það sé mjög gott ákvæði vegna þess að eftir að ég bar fyrirspurnina fram og eftir að hér fór fram umræða um vímuefni var haft samband við mig einmitt af afa sem hafði miklar áhyggjur af barnabarni sínu sem hafði orðið þeirri vá að bráð. Hann fór einmitt í gegnum það með mér hvað það þýðir varðandi örvinglað ungmenni sem farið var með inn á sjúkrahús og hægt að halda í tvo sólarhringa. Reyndar veit ég að það er hægt að fá bráðabirgðasviptingu í 14 daga, en úrræðin þurfa að vera þess eðlis varðandi það fólk að hægt verði að fá viðkomandi í meðferð í ákveðinn tíma. Slíkt ákvæði mundi vissulega geta komið til gagnvart fólki sem aftur og aftur og aftur hefur verið reynt að hjálpa, en hefur horfið aftur til sömu aðstæðna og ætti að vekja vonir þeirra aðstandenda sem ekki hafa treyst sér til að beita sér fyrir sjálfræðissviptingu sem er til langframa því að eins og fram hefur komið þá fæst ekki sjálfræði aftur nema með nýjum dómi. Hvort tvegga, sjálfræðissviptingin, og það að koma sjálfræðinu á kjöl á ný eða að viðkomandi fái sjálfræði sitt á ný, eru þung og erfið mál í dómskerfinu að því er mér skilst og erfitt að fara í gegnum. Ég hvet því til að þetta ákvæði verði opnað, þ.e. að tímabundin svipting sem komi sjálfkrafa til baka og að jafnframt verði hugað að úrbót gagnvart þroskaheftum og þeim sem minna mega sín.