Útskriftir íbúa Kópavogshælis

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 16:00:55 (6649)

1996-05-28 16:00:55# 120. lþ. 149.13 fundur 516. mál: #A útskriftir íbúa Kópavogshælis# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[16:00]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. félmrh. varðar útskriftir frá fyrrum Kópavogshæli. Í greinargerð með lögum um málefni fatlaðra var vakin athygli á stöðu þeirra sem búa á þessari stærstu sólarhringsstofnun fyrir þroskahefta. En þeir njóta eðli málsins samkvæmt engan veginn sömu mannréttinda og aðrir sem búa á öðrum stöðum og eru sjálfstæðari.

Nefndin sem endurskoðaði lögin komst að þeirri niðurstöðu að það væri brýnt að færa lífskjör þessara þjóðfélagsþegna í nútímalegra horf. Sömuleiðis kom fram hjá félmn. sem fjallaði um frv. á sínum tíma að það væri brýnt að taka á málum íbúa Kópavogshælis. Þess var getið, virðulegi forseti, í nál. að brýnt væri að heilbrrn. og félmrn. leystu þann vanda sem við blasti, að íbúum Kópavogshælis mundi ekki standa öll þjónusta samkvæmt þessum nýju lögum til boða eins og öðrum.

Þessi mál voru enn óleyst í lok árs 1994 þegar ég átti stuttan tíma í félmrn. svo mér gafst kostur á að leggja mitt af mörkum til að skipuð yrði nefnd heilbrrn. og félmrn. eða starfshópur til að skipuleggja útskriftir fólks frá Kópavogshæli og skoða með hvaða hætti yrði farið með þau mál, en þá var verið að breyta Kópavogshæli í endurhæfingardeild fyrir Ríkisspítala. Það var svo í ársbyrjun 1995 að gert var skriflegt samkomulag milli ráðuneytanna um fyrsta hluta áætlunar um útskriftir fólks frá stofnuninni. Það er á þá leið að árið 1995 verði 37 íbúar á endurhæfingardeildinni útskrifaðir þaðan og þeim þar með búin nútímalegri lífskjör. Í samkomulaginu fólst jafnframt að 37 stöðugildi fylgdu fólkinu frá stofnuninni en félmrn. skuldbatt sig til að koma á fót a.m.k. þremur sambýlum á árinu auk þess sem loforð var gefið um að einstaklingsúrræði skyldu verða í boði á sambýlum eða öðrum heimilum víðs vegar um land. Nú erum við að nálgast mitt ár 1996 og eftir mínum upplýsingum hafa einungis 13 manns flutt frá stofnuninni þrátt fyrir að menn töldu að umsamið væri um fjármagn og stöðugildi sem flutt yrðu til félmrn. um síðustu áramót.

Ég vil því spyrja hæstv. félmrh. hvort hann hafi í hyggju að standa við fyrri skuldbindingar í þessu máli og þá hvenær. Enn fremur leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra hver sé stefna hans í búsetumálum fatlaðra og hvort hann hyggist halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið og sem fatlaðir og foreldrar þeirra hafa ítrekað óskað eftir að farin verði, þ.e. að leggja niður í núverandi mynd sólarhringsstofnanir fyrir þroskahefta og búa þessum einstaklingum möguleika í íbúðum eða á sambýlum.