Útskriftir íbúa Kópavogshælis

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 16:10:06 (6652)

1996-05-28 16:10:06# 120. lþ. 149.13 fundur 516. mál: #A útskriftir íbúa Kópavogshælis# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[16:10]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þessi svör. Ég er ánægð með svörin. Varðandi það að ekki eiga allir heima á sambýlum þá er það rétt. Það er hins vegar svo að stórar stofnanir eru í eðli sínu mjög ólíkar sambýli fyrir þann sem þar býr. Sambýli er miklu frjálsari búseta þar sem einstaklingurinn hefur forræði á sínum málum, sér um sín fjármál og annað og greiðir til heimilisins. Stofnun er stofnun eins og við þekkjum. Sumir geta búið í vernduðum íbúðum, jafnvel miklu fleiri en áður var talið. Jafnvel hafa fatlaðir einstaklingar keypt sér íbúðir og klárað sig vel. Svo þekkjum við starfsemi eins og Sólheima í Grímsnesi sem margir telja að eigi verulegan rétt á sér jafnvel þótt flestar stofnanir verði lagðar niður. Þar er annars konar umhverfi sem hentar mögum þar sem fólk getur notið samvista og kynnst. Jafnvel bundist tryggðaböndum og hjúskap. Þannig er mikilvægast fyrir okkur að skapa þessum þjóðfélagsþegnum öllum aðstöðu við sitt hæfi. Vera með úrræði sem eiga heima í nútímanum. Ekki festa okkur um of í að eitthvað eitt sé ónýtt og annað sé það eina rétta heldur eiga allar þær lausnir sem þarf til að skapa hvetjandi umhverfi fyrir alla þessa fjölbreyttu einstaklinga með sínar mismunandi þarfir. Ég er mjög ánægð með þetta svar, virðulegur forseti.