Ríkisreikningur 1994

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 16:56:30 (6657)

1996-05-28 16:56:30# 120. lþ. 150.3 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv. 83/1996, Frsm. JónK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[16:56]

Frsm. fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti fjárln. um frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1994.

,,Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og farið yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings. Hjá yfirskoðunarmönnum koma fram ýmsar ábendingar varðandi ríkisreksturinn og hefur nefndin fjallað um þær og fengið skýringar frá Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneyti. Helstu athugasemdir eru eftirfarandi:

Yfirskoðunarmenn telja lífeyrisskuldbindingar vera einn helsta vanda ríkissjóðs. Í því sambandi er jafnframt bent á að ekki liggi nægilega skýrt fyrir hverjar séu lífeyrisskuldbindingar af starfsmönnum fyrirtækja sem ekki eru lengur í ríkiseign og starfsmönnum í norrænu samstarfi. Lögð er áhersla á að tekið sé á þessum málum.

Yfirskoðunarmenn gagnrýna launakerfi ríkisins. Gagnrýnin lýtur að alls konar aukagreiðslum sem tíðkast í kerfinu, svo sem óunninni yfirvinnu, bifreiðahlunnindum, húsnæðisfríðindum, risnu, greiðslum fyrir aukastörf og nefndar- og stjórnarlaunum. Ítrekaðar eru fyrri áskoranir um að heildarúttekt fari fram á launum og starfskjörum starfsmanna ríkisins.

Yfirskoðunarmenn árétta þá skyldu ríkisstofnana og ríkisbókhalds að halda fullnægjandi eignaskrá og að í engu verði slakað á kröfum um gerð heildarskrár um eignir ríkisins.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning fyrir árið 1994 koma fram ýmsar ábendingar er varða ríkisreksturinn. Ríkisendurskoðun bendir á að vextir á útlánum Lánasjóðs íslenskra námsmanna og byggingarsjóðanna eru niðurgreiddir miðað við markaðsvexti sem gerir það að verkum að eigið fé þessara sjóða skerðist smám saman nema á móti komi framlag úr ríkissjóði. Framreikningur á greiðslustreymi sjóðanna sýnir að eignir gera vart meira en að standa undir núverandi skuldbindingum. Þessu til viðbótar hafa lífeyrisskuldbindingar aðila í B-hluta ekki verið bókfærðar í reikningsskil þeirra en þær eru um 12 milljarðar kr. Að teknu tilliti til þessara atriða má segja að verðgildi eigin fjár hjá B-hluta fyrirtækjum og sjóðum ríkisins hafi í árslok 1994 verið um 34 milljarðar kr. en ekki 86,5 milljarðar kr.

Ríkisendurskoðun bendir á að verulegur dráttur hefur orðið á að Ríkisábyrgðasjóður endurkrefji skipasmíðastöðvar um áfallnar skuldir. Þessar kröfur nema alls um 2,3 milljörðum kr. með dráttarvöxtum.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir umsýslu Seðlabanka Íslands með endurlánum ríkissjóðs, t.d. skuldir Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar við ríkissjóð frá árunum 1974 og 1975, en engar tilraunir hafa verið gerðar til að innheimta þessi lán.

Ríkisendurskoðun telur óeðlilegt að ráðast í stækkun Flugstjórnarmiðstöðvarinnar án þess að fyrir liggi samþykki ICAO.

Ríkisendurskoðun gerði ýmsar athugasemdir er varða aðalskrifstofur ráðuneyta. Eignaskráningu var verulega áfátt hjá 12 ráðuneytum af 13. Tekjuskráning, nákvæmni við bókanir og eftirlit með fjarvistum var ekki viðunandi að mati Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að ákvörðunum og eftirliti er varðar sérfræðiþjónustu sé í mörgum tilfellum ábótavant.

Nefndin leggur ríka áherslu á að ráðherrar taki tillit til athugasemda Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna og sjái til þess að ráðuneyti og stofnanir bregðist jákvætt við þeim ábendingum sem settar eru fram eftir því sem við verður komið.

Nefndin mun hafa samráð við Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneyti um frekari meðferð athugasemda Ríkisendurskoðunar í tengslum við afgreiðslu á skýrslu um framkvæmd fjárlaga þegar hún verður tekin til meðferðar í nefndinni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.``

Undir nál. skrifa: Jón Kristjánsson, Sturla Böðvarsson, Kristinn H. Gunnarsson, Árni M. Mathiesen, Árni Johnsen, Gísli S. Einarsson, Kristín Halldórsdóttir, Hjálmar Jónsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason og Arnbjörg Sveinsdóttir.