Sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 17:14:08 (6661)

1996-05-28 17:14:08# 120. lþ. 150.5 fundur 389. mál: #A sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda# (breyting ýmissa laga) frv. 73/1996, Frsm. EgJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[17:14]

Frsm. landbn. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. landbn. á þskj. 1050. Málið var lagt fram á þskj. 684 og brtt. nefndarinnar eru á þskj. 1051. Frv. er um breytingu á ýmsum lögum sem vegna sameiningar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda er nauðsynlegt að framkvæma.

Nál. ber með sér að til viðræðna við nefndina voru fengnir Jón Höskuldsson, skrifstofustjóri í landbrn., Jóhannes Torfason, formaður Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, og Jón Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri sama sjóðs, auk Sveins Runólfssonar landgræðslustjóra og Sigurgeirs Þorgeirssonar, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands.

Auk þess bárust nefndinni umsagnir frá Neytendasamtökunum, Landgræðslu ríkisins og Bændasamtökum Íslands.

Nefndarálitið er skýrt fram sett. Þar er gerð grein fyrir afstöðu nefndarinnar í fjórum liðum með afar skýrum hætti og vísa ég sérstaklega til þess sem þar kemur fram. Enn fremur ber nefndarálitið með sér að allir nefndarmenn landbn. undirrita það og reyndar einn nefndarmaður, Margrét Frímannsdóttir, með fyrirvara. Að öðru leyti er nefndarálitið ágreiningslaust.

Þar af leiðandi sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál, en geri það að tillögu minni, virðulegi forseti, að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 3. umr.