Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 18:05:04 (6669)

1996-05-28 18:05:04# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[18:05]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Því miður átti ég þess ekki kost af persónulegum ástæðum að vera viðstaddur 2. umr. um frv. til laga um framhaldsskóla. Ég gat því ekki tekið þátt í henni en fygldist með henni og hef aðeins lesið þau skjöl sem um er að ræða og sömuleiðis umræðurnar. Ég las yfir umræðurnar um málið og leyfi mér þess vegna að flytja við 3. umr. nokkrar brtt. á þskj. 1076, átta brtt. sem ég mun gera hér grein fyrir en jafnframt fara almennt yfir málið.

Það er þá fyrst til að taka, hæstv. forseti, að svipað mál hefur verið til meðferðar um alllangan tíma. Ætli það sé ekki rétt hjá mér að þetta sé þriðja þingið sem við erum með frv. til laga um framhaldsskóla, það hafi verið tvö þing í tíð fyrrv. hæstv. menntmrh. Síðan kemur þetta frv. flutt af núv. hæstv. menntmrh. og á því hafa verið gerðar sautján breytingar frá því sem frv. var þegar það var lagt fram á síðasta kjörtímabili. Það er eins og gengur að sumar þessar breytingar eru til bóta en aðrar orka kannski frekar tvímælis. Þó held ég að megi nú segja að í það heila tekið séu þær margar til bóta miðað við málið eins og það lá fyrir í hinni upphaflegu mynd.

Hins vegar verður að segja eins og er að í þessum brtt. og breytingum sem núverandi stjórnarflokkar gerðu er ekki tekið á þeim málum sem mestum deilum ollu við meðferð þessara mála á síðasta kjörtímabili. Væri út af fyrir sig hægt að fara nokkuð rækilega yfir það, en það verður ekki gert að sinni. Ég rifja upp það aðalatriði sem kom fram í umræðum um þetta mál af minni hálfu á síðasta kjörtímabili og það gildir enn. Það er þetta:

Í orði kveðnu á að styrkja stöðu verkmenntunar, en það er ekki gert í frv. af því að í frv. vantar peninga. Það eru engir peningar í þessu frv. Hæstv. menntmrh. skýrði frá því fyrr í umræðum í dag um eitthvert annað mál, ég held að það hafi verið í fyrirspurnatíma um Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn, hverjar fjárlagatillögur mentmrn. væru um þetta bókasafn fyrir árið 1997. (Menntmrh.: Þetta voru ekki tillögur ráðuneytisins.) Ekki tillögur ráðuneytisins, heldur tillögur stofnunarinnar þá væntanlega. En í tilefni af þessu mundi ég vilja spyrja hæstv. menntmrh.: Er það rétt að það sé gert ráð fyrir verulegum niðurskurði á framlögum til framhaldsskóla í þeim ramma að fjárlagafrv. fyrir árið 1997 sem menn eru að vinna að? Er það tilfellið að menn geri t.d. ekki ráð fyrir því að 3. gr. frv. kosti peninga? Ég sé t.d. að fjmrn. gerir það ekki. Fjmrn. gerir ekki ráð fyrir því að 3. gr. þessa frv. kosti peninga. En þessa spurningu vildi ég nefna við hætv. menntmrh. vegna þess að mér finnst hún vera lykilatriði. Ef ekki er ætlunin að setja meiri fjármuni í framhaldsskólann hefur þessi góða meining enga stoð sem hér eru uppi hugmyndir um af því að vandi verkmenntunar er ekki bara lög og lagabreytingar. Vandi verkmenntunar á Íslandi er annars vegar skipulag á þessum málum, þ.e. samvinna skóla og atvinnulífs með skipulegum hætti og með breyttu kerfi frá því sem nú er, sem menn þora ekki að taka á í þessu frv. frekar en áður. Í öðru lagi eru það fjármunir vegna þess að verkmenntunin er aðeins dýrari en þessir venjulegu bóknámsskólar. Það er þó nokkur munur á því hvort menn eru að reka Fjölbrautaskólann í Breiðholti með þeim verknámsáföngum sem þar eru boðnir eða t.d. Menntaskólann í Reykjavík sem er dæmigerður bóknámsskóli, svo ég nefni tvö dæmi til samanburðar.

Þess vegna finnst mér, hæstv. forseti, að í raun og veru séu engin sérstök rök fyrir því að flýta sér með þetta frv. Mér fyndist það miklu skynsamlegra að fara fyrst í þessa samninga við kennarana sem og aðra starfsmenn skólanna sem þeir óska eftir. Það er í rauninni nokkuð athyglisvert að hvert einasta mál sem tekið er í gegn í þinginu á þessu vori, er tekið í gegn í átökum við starfsstéttirnar. Það virðist vera þannig með núv. hæstv. ríkisstjórn að hún má helst aldrei sjá vinnandi mann án þess að segja honum stríð á hendur og öllu því sem í kringum hann er. Þar er Framsfl. engu betri en Sjálfstfl. svo undarlegt sem það nú er. Enda framkvæmir þessi stjórn að sögn Sjálfstfl. sömu stefnu og sú síðasta og Framsfl. framkvæmir þar af leiðandi stefnu Alþfl. Til hamingju með það.

En ég vildi aðeins víkja að athugasemdum sem fram hafa komið frá Hinu íslenska kennarafélagi og birtust í samþykkt sem Kennarafélagið gerði á fundi sínum 30. apríl 1996. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Stjórn Hins íslenska kennarafélags bendir á að við meðferð frv. til laga um framhaldsskóla sem nú kemur til 2. umr. á Alþingi hafa nær engar þeirra fjölmörgu athugasemda samtaka kennara né annarra skólamanna um það er betur mætti fara verið teknar til greina. Framhaldsskólafrv. bætist því í flokk þeirra frumvarpa sem keyra á í gegn í megnu ósætti við þá sem vinna eiga eftir lögunum.

Hið íslenska kennarafélag bendir á að frv. tryggir í sjálfu sér ekki eflingu starfsnáms öfugt við það sem ráða mætti af málflutningi stjórnarflokkanna. Frv. þrengir inntökuskilyrði í framhaldsskóla , fækkar námsbrautum í bóknámi, eykur miðstýringu og færir völd á færri hendur. Frv. skerðir möguleika kennara og annars fagfólks til þátttöku í stefnumótun og stjórnun framhaldsskóla og skerðir einhliða ráðningarréttindi kennara og skólameistara.

Hið íslenska kennarafélag telur það skref aftur á bak að færa menntmrh. meiri hluta í öllum skólanefndum og vísa fulltrúa kennara og nemenda úr þeim. Félagið undirstrikar sérstaklega að verði 3. gr. frv. að lögum um fjölgun kennsludaga miðað við óbreytt skólaár kallar það á tafarlausa endurskoðun kjarasamninga framhaldsskólakennara sem ljúka þarf fyrir 1. ágúst 1996.

Hið íslenska kennarafélag harmar að ekki var orðið við tilmælum samtaka kennara fyrr í vetur um að endurskoða frv. í samráði við þau og telur misráðið að beita afli í stað samráðs í svo mikilvægum málum.``

Hér lýkur tilvitnun í ályktun Hins íslenska kennarafélags og í henni koma fram ein átta efnisatriði sem er ástæða til þess að fara aðeins yfir.

Í fyrsta lagi leggur HÍK áherslu á að frv. eins og það lítur út núna þrengi inntökuskilyrði í framhaldsskóla. Ég held að það sé alveg útilokað annað en fallast á það sjónarmið og þess vegna flyt ég eina brtt. við frv. á þskj. 1076 sem ég mun koma nánar að síðar. Ég hef ekki séð athugasemdum Hins íslenska kennarafélags varðandi þrengingu inntökuskilyrða í framhaldsskóla svarað. Mér þætti vænt um ef höfundar frv., hv. þm. Hjálmar Árnason og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, vildu kannski rökstyðja þetta aðeins nánar þótt frv. sé komið til 3. umr. Hvernig svara þau því að frv. þrengi inntökuskilyrði í framhaldsskóla?

Í öðru lagi kemur fram í þessari ályktun að samkvæmt frv. fækkar námsbrautum í bóknámi. Það held ég að sé alveg tvímælalaust. Það eykur miðstýringu og færir völd á færri hendur. Það tel ég einnig tvímælalaust miðað við það að kennurum og nemendum er hent út úr skólanefndinni. Síðan er sagt að í fimmta lagi skerði frv. möguleika kennara og annars fagfólks til þátttöku í stefnumótun og stjórnun framhaldsskóla og skerði einhliða ráðningarréttindi kennara og skólameistara. Mér þætti vænt um að fólk svaraði þessu. Ég hef ekki orðið var við það að þeir sem standa að þessu rökstyðji af hverju það má koma þannig að þessu fólki.

[18:15]

Í sjötta lagi segir: ,,HÍK telur það skref aftur á bak að færa menntmrh. meiri hluta í öllum skólanefndum og vísa fulltrúa kennara og nemenda úr þeim.`` Ég verð að taka undir þetta sjónarmið og ég sé engin rök fyrir því að menntmrh. eigi að hafa meiri hluta í öllum skólanefndum. Hvaða einræðishugsunarháttur er þetta sem vakir fyrir hæstv. menntmrh.? Af hverju vill hann endilega ráða öllum skólanefndunum? Það er ævinlega þannig með Sjálfstfl. að þegar kemur að löggjöf eins og skólalöggjöf eða velferðarlöggjöf, þá vill hann ráða, þá vill hann hafa það þannig að hann ráði hlutunum, ráði nefndunum, ráði ráðningunni á fólkinu o.s.frv. En svo þegar kemur að fjármagninu, þá á allt að dansa laust og vera frjálst. Frelsi Sjálfstfl. og hægri flokkanna byggist alltaf á því að það er fjármagnið sem á að vera frjálst en fólkið á að vera bundið. Það er aðferðin sem íhaldið yfirleitt hefur bæði hér á landi og annars staðar eins og menn þekkja ef menn nenna að lesa hugmyndafræði hægri flokka. Og það er alveg lifandi komið í þessari afstöðu núv. hæstv. menntmrh. Hér á að reyra fólkið fast en fjármagnið á svo að dansa laust. Eina frelsið sem skiptir máli er peningafrelsið hjá þessum stærsta flokki landsins, svo ótrúlegt sem það nú er. Það þyrfti að fara að breyta því fljótlega finnst mér, það er kominn tími til þess að draga hann aðeins niður. Hann ætti ekki að vera nema svona 5--7%, þessi flokkur peningaaflanna. Það eru ekki miklu fleiri sem hafa hagsmuni af því að hafa Sjálfstfl. við völd. 7% að hámarki. Síðan segir hér, hæstv. forseti:

,,Félagið undirstrikar sérstaklega að verði 3. gr. frv. að lögum um fjölgun kennsludaga miðað við óbreytt skólaár kallar það á tafarlausa endurskoðun kjarasamninga framhaldsskólakennara sem ljúka þarf fyrir 1. ágúst 1996.`` Og næsta spurning mín er: Hvað með þetta mál? Er þessi endurskoðun kjarasamninga hafin? Það er kannski rétt að spyrja fjmrh. um þetta mál. Hann er væntanlegur í húsið núna fljótlega og ætlar að tala fyrir frv. um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, ef ég man rétt. Það er kannski ástæða til þess að hann fái að svara þessu. Eru einhverjar kjarasamningaviðræður hafnar með hliðsjón af þeim breytingum sem á að gera samkvæmt 3. gr. frv.?

Hér eru saman komin 7 eða 8 efnisatriði sem eru mjög mikilvæg og hreyft er í athugasemdum Hins íslenska kennarafélags.

Þessum atriðum er svo rækilega fylgt eftir í grein sem Elna Katrín Jónsdóttir skrifar í Kennarablaðið apríl/maí 1996, 4. tbl. 3. árg. Þar fer hún rækilega yfir málin í kafla sem ber yfirskriftina ,,Af hverju andstaða?`` og þar segir, með leyfi forseta:

,,Af hverju eru kennarar á móti framhaldsskólafrv.? Til upprifjunar má geta þess að verði frv. að lögum:

Fækkar fulltrúum í skólanefndum úr 7 í 5, kennarar og nemendur eiga ekki lengur fulltrúa með atkvæðisrétt í nefndunum og menntamálaráðherra velur sjálfur meiri hluta fulltrúa í hverja einustu skólanefnd framhaldsskóla í landinu.

Verður kennsludögum fjölgað í 150 innan 9 mánaða skólaársins án þess að gert sé ráð fyrir fé á fjárlögum ársins 1996 til þess að semja um aukið vinnuframlag kennara eða nokkrar aðrar áætlanir verið gerðar til þess að undirbúa svo stórtæka breytingu á skipulagi kennslu og prófa í framhaldsskólum.`` --- Í breytingum sem voru samþykktar við 2. umr., herra forseti, var þessi tala kennsludaga færð niður í 145, en það breytir engu um efni málsins.

,,Verður skólanámskrá háð samþykki skólanefndar án þess að tryggt sé að þar sitji nokkur skólamaður með atkvæðisrétt.

Verður mat á námi til eininga fellt út úr framhaldsskólalögunum án þess að nokkur önnur nothæf matsforsenda t.d. á námi milli skóla sé lögð til.

Verður rétturinn til að sækja um skipun í störf einhliða tekinn af framhaldsskólakennurum án þess að sambærileg ráðningarkjör bjóðist í staðinn.

Verða skólameistarar skipaðir til 5 ára og framhaldsskólinn því háður pólitískum ákvörðunum um skipun í stjórnunarstöðu á 5 ára fresti.

Fjölmörg önnur atriði í frv. orka tvímælis og ber það raunar merki þess að hafa velkst í gegnum tvær ríkisstjórnir og tvö eða þrjú þing.

Frumvarpið var á sínum tíma borið fram m.a. á þeirri forsendu að það endurspeglaði stefnu ríkisstjórnar um að stórefla starfsnám í landinu. Ekki getur það markmið talist trúverðugt miðað við efni frumvarpsins og þá staðreynd að öllum framhaldsskólum var gert að skera niður kennslukostnað um 3% á yfirstandandi ári og áform heyrast nú um viðlíka eða meiri niðurskurð á kennslukostnaði í framhaldsskólum 1997 og jafnvel enn meiri niðurskurð á rekstrarkostnaði.``

Satt að segja lagði ég eyrun við því við 2. umr. hvort þessum athugasemdum sem koma fram frá HÍK og formanni Hins íslenska kennarafélags væri að einhverju leyti svarað af stjórnarmeirihlutanum, en sá eða heyrði engin merki þess að það væri gert. Ég harma það, hæstv. forseti, og vil láta það koma fram þótt það sé við 3. umr. að ég tel miður að ríkisstjórnin skuli ekki virða starfsmenn sína viðlits í þessu máli að heitið geti í sambandi við breytingartillögur á þessu frv. Að þessu máli hefur þó komið a.m.k. einn maður sem hefur komið inn í skóla til að vinna þar á seinni árum sem er má segja framför miðað við það sem var fyrr þegar fáir skólamenn voru kallaðir til að vinna í þessum málum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það virðist ekki vera að þessi eini skólamaður hafi haft mjög mikil áhrif á þetta frv. frá því sem það var í upphafi. Greinilega eru það aðrir sem hér ráða för.

Ég vík þá aðeins að einstökum atriðum og að mínum breytingartillögum og þá fyrst að brtt. við 6. gr. sem lýtur að skólanefndunum. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Við 6. gr. Í stað 2. málsl. 2. mgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningu sveitarstjórnar/sveitarstjórna.``--- Það er óbreytt. --- ,,Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningu starfsmannafundar viðkomadi skóla og skal a.m.k. annar þeirra vera kennari en einn skipaður án tilnefningar og skal hann búsettur í sveitarfélagi sem á aðild að skólanm.``

Eins og hv. þingmenn heyra, herra forseti, í þessu sambandi, þá er breytingin fólgin í því fyrst og fremst að hér er gert ráð fyrir að starfsmenn skólans komi að þessu máli. Nú er mér kunnugt um að það hefur verið látið á þetta reyna í hv. menntmn. en hins vegar hefur ekki verið fjallað um það sérstaklega í atkvæðagreiðslu hvort einhverjir gætu hugsað sér að hleypa þarna inn starfsmönnum skólanna. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þeir sem þekkja til starfa framhaldsskólanna séu á móti þessari tillögu vegna þess að ég tel að þessar skólanefndir hafi gefist vel. Ég spyr: Hafa þessar skólanefndir gefist illa? Hafa þær verið vondur samstarfsvettvangur nemenda og eigenda skólanna og kennara? Hafa þær verið það? Ég nefni einn skóla sem dæmi, Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Jón Böðvarsson var þar lengi skólameistari og forustumaður, fyrsti skólameistari ef ég man rétt. Hann átti verulegan þátt í því að þessir hlutir voru settir af stað með þeim hætti sem menn þekkja. Og ég er alveg sannfærður um að þessar skólanefndir hafa hjálpað mjög verulega til við að treysta stöðu þessara skóla í viðkomandi byggðarlögum og við að treysta stöðu skólanna t.d. gagnvart kennurum, tengja saman bæði baklandið og starfsmennina á einum stað. Það er ekki vafi á því að skólanefndirnar hafa gert það.

Ég veit að sjónarmiðin gagnvart skólanefndunum voru öðruvísi í Reykjavík til að byrja með. Ég rifja stundum upp mér til skemmtunar orð sem fyrrv. rektor Menntaskólans í Reykjavík hafði um það hvernig hann mundi haga sér þegar hann sæi skólanefnd á fyrsta fundi. Ég ætla ekki að fara yfir það hér úr þessum virðulega ræðustól. Það voru þannig ummæli að það er ekki við hæfi. Samt held ég að skólanefndirnar t.d. hér í Reykjavík, t.d. við Menntaskólann í Reykjavík eða Menntaskólann við Hamrahlíð svo ég nefni dæmi, hafi gert mikið gagn. Ég nefni t.d. Menntaskólann í Reykjavík. Það hafa verið uppi óskir um að gerðar yrðu verulegar endurbætur á húsakosti hjá Menntaskólanum í Reykjavík. Þær hafa komið frá öllum aðilum, hópi sem starfar í kringum þennan skóla og tengist honum. En með þeim aðferðum sem hér er verið að tala um er verið að gera þetta að umdeildri stofnun og höggva á þessi tengsl á milli eigenda skólans, ríkisins og sveitarfélaganna annars vegar og svo starfsmanna skólans hins vegar. Menn hverfa marga áratugi aftur í tímann. Er það kannski meiningin hjá ríkisstjórninni að henda starfsmönnum út úr öllum nefndum? Er það t.d. meiningin hjá ríkisstjórninni að henda starfsmönnum úr stjórnarnefnd Ríkisspítalanna eða öðrum stofnunum þar sem starfsmennirnir eiga fulltrúa? Af hverju mega kennararnir ekki eiga fulltrúa? Af hverju mega starfsmennirnir ekki eiga fulltrúa? Eru kennararnir í raun og veru verri? Er þetta yfirlýsing um að þeir séu óalandi og óferjandi og þeir megi alls ekki koma nálægt stjórnun nokkurrar stofnunar? Ég hef ekki heyrt nein rök fyrir þessu, satt best að segja, hæstv. forseti. Ég hlýt að lýsa furðu minni á þessari framkomu og lítilsvirðingu við kennarastéttina sem hér er um að ræða. Það á ekki bara að henda þeim úr þessum nefndum, þeim er líka, hæstv. forseti, hafnað þegar kemur að brtt. sem þeirra samtök gera. Það er ekki hlustað á kennarana, burt með þá.

Önnur brtt. mín, hæstv. forseti, hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við 11. gr. 1. málsl. 2. mgr. orðist svo: Menntamálaráðherra skipar skólameistara til fimm ára í senn að fenginni tillögu hlutaðeigandi skólanefndar og umsögn kennarafundar viðkomandi skóla.``

Ég hefði gaman af því, hæstv. forseti, að heyra hvort menn mundu ekki vilja samþykkja þessa tillögu. Það nýja í henni er umsögn kennarafundar. Og ég mundi vilja spyrja, hæstv. forseti, hvort það sé ekki hægt í allri vinsemd að fallast á þessa tillögu. Hér er bara verið að fara fram á að kennararnir megi senda frá sér umsögn um ráðningu skólameistara.

Í þriðja lagi flyt ég brtt. við 15. gr. og hún er á þessa leið: ,,1. málsl. 2. mgr. falli brott.``

Og hvernig hljóðar hann? Hann hljóðar svona: ,,Inntaka nemenda á einstakar námsbrautir framhaldsskólans ákvarðast af þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi.``

Eins og fram hefur komið, m.a. í ályktunum frá Hinu íslenska kennarafélagi, gerir frv. ráð fyrir verulegri þrengingu á aðgangi að þessum skólum. Hér er um að ræða setningu eða málslið sem er sérstaklega slæmur í þessu efni vegna þess að hann ætlast til þess að það sé hægt að loka inngöngunni með þeim námskröfum sem skólinn kýs að gera hverju sinni gagnvart þessu fólki. Ég held að það sé nóg í þessu samhengi, hæstv. forseti, að orða þetta svona eins og gert er hér, með leyfi forseta:

,,Allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumennun skulu eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla.

Í reglugerð skal kveðið á um lágmarkskröfur um námsárangur í einstökum greinum`` o.s.frv.

Ég tel að þetta sé algerlega nægilegt. Ég sé engin rök fyrir þessari setningu nema menn vilji í raun og veru leggja lykkju á leið sína til þess að þrengja þetta enn þá meira en einhver efnisleg rök kunna að vera fyrir. Það hefur auðvitað verið viss tilhneiging til þess að vilja þrengja aðgang að framhaldsskólanum og hafa satt að segja verið alveg ótrúleg viðhorf kynnt í þeim efnum, m.a. úr þessum stól.

Síðan vík ég að 21. gr. og þar kem ég að atriði sem ég tel mjög mikilvægt í þessu frv. Það er að mér finnst áfangakerfinu vera byggt út. Mér finnst einingakerfinu vera byggt út og það er enginn grunnur í frv. búinn til fyrir eininga- og áfangakerfið. Þess vegna finnst mér mikilvægt að það sé bætt við 1. mgr. 21. gr. þessari setningu: ,,Í aðalnámskrá skal tilgreina mat á námi til námseininga.`` Ég skora á stjórnarmeirihlutann að velta því fyrir sér hvort hann getur ekki fallist á að þessi tillaga væri til bóta. Það þarf auðvitað að vera til kerfi, m.a. til þess að meta nemendur á milli skóla. Það er ekki óeðlilegt að það séu sett inn í lögin ákvæði af þessu tagi ef menn eru að setja þetta ítarleg lög á annað borð, sem út af fyrir sig umdeilanlegt mál. En ef menn eru að setja þetta ítarleg lög á annað borð vil ég spyrja hvort menn geti ekki í alvöru talað velt því fyrir sér að samþykkja eina brtt. af þessu tagi, þó svo hún komi frá stjórnarandstöðunni.

Þá flyt ég brtt., hæstv. forseti, við 24. gr. Þar er ákvæði um að það yrði heimilt að vera með samræmd próf í tilteknum greinum og það yrði ákveðið með reglugerð í framhaldsskólum. Með þessu móti væru menn að gerbreyta karakter framhaldsskólans. Ég tel þetta ekki til bóta. Það væri verið að minnka sjálfstæði hvers skóla fyrir sig. Það er ómótmælanlegt. Það væri í raun og veru verið að segja að það sjálfstæði sem hver skóli hefur núna yrði minnkað vegna þess að ætlast væri til þess að menn væru staðlaðir eftir tilteknum samræmdum kröfum. Það er að vísu farið út. Mig minnir að þingmennirnir hafi tekið það út að Rannsóknastofnun uppeldismála ætti að sjá um þessa stöðlun og ég tel það heldur til bóta. (Gripið fram í: Það var tekið út ...) Já, það fór út, ég hélt það. Það var það sem ég var að segja. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir og hv. þm. Hjálmar Árnason, bæði eru þingmenn, ég kannast við að það hafi verið samþykkt á þau kjörbréf, og þetta er 11. brtt. hjá þeim. Það er alveg ómótmælanlegt að þau eru þeir skörungar að hafa skipt þessari tillögu út og eiga þakkir skildar fyrir það. Það er ein sú ríkisstofnin sem hefur þanist mest út á seinni árum eins og menn þekkja. Út af fyrir sig tel ég það til bóta en ég tel að það væri langhreinlegast að henda út þessari samræmduprófahugmynd sem þarna er í 24. gr. og geri þess vegna tillögu um það.

[18:30]

Þá geri ég í sjöunda lagi brtt. við 28. gr. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við 28. gr. 2. málsl. 1. mgr. orðist svo: Í starfsgreinaráði skulu eiga sæti fulltrúar tilnefndir af samtökum atvinnurekenda, launamanna og kennara í viðkomandi starfsgreinum og einn fulltrúi menntmrh.``

Viðbótin er ,,og kennara`` þannig að fagkennarar í viðkomandi starfsgreinum komi við sögu í starfsgreinaráðinu. Það er eins með þessa tillögu, mér sýnist hún í raun og veru þannig að það er beinlínis grunsamlegt ef menn finna rök fyrir því að vera á móti þessu. Það liggur í augum uppi að það væri sanngjarnt að starfsgreinakennararnir gætu verið þarna í þessum ráðum. Í raun og veru er þessi grein, 28. gr., það opin að í sjálfu sér gæti menntmrh. gefið yfirlýsingu um það hér að þessi aðilar ættu að koma þarna inn eða ættu að koma þarna við sögu. Hitt væri þó miklu betra að menn hreinlega breyttu 28. gr. eins og hér er lagt til á þskj. 1076.

Þá flyt ég í áttunda og síðasta lagi tillögu um að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

,,Ákvæði 3. gr. koma til framkvæmda þegar gerðir hafa verið kjarasamningar við starfsmenn skólanna á grundvelli þessara laga í fyrsta sinn.``

Er ekki óhjákvæmilegt hvort sem er að gera þessa samninga áður en 3. gr. kemst í framkvæmd? Ég mundi vilja spyrja hvernig menn sjá það fyrir sér að hún komist í framkvæmd án þess að samningar séu gerðir og hvort það er þá ekki einfaldast að samþykkja þessa tillögu.

Virðulegi forseti. Hér hef ég gert í mjög stuttu máli grein fyrir þessum átta breytingartillögum sem þarna eru fluttar. Í sjálfu sér eru þær flestar leiðréttingar frá því sem er í frv. og minni háttar lagfæringar. Ég tel ekki að hér sé um að ræða róttækar breytingar nema ef vera skyldi við 15. gr., ég tel að það sé nokkuð róttæk breyting. Ég tel einnig að skólanefndabreytingin sé róttæk breyting. Að öðru leyti eru þetta almennar lagfæringar sem eiga rétt á sér að ekki sé meira sagt í þessum lögum.

Ég held að það sé kannski nauðsynlegt að ítreka, hæstv. forseti, vegna þess að það féll niður brtt. nr. 5 á þskj. 1076 við 22. gr. þar sem ég geri ráð fyrir því að 2. og 3. málsl. 2. mgr. falli brott en við bætist ný málsgrein sem er svona:

,,Kennarafundur fjallar um skólanámskrá og samþykkir hana fyrir sitt leyti. Skólameistari fylgist með framkvæmd hennar.``

Hér er verið að tryggja að það sé eðlileg meðferð á þessum málum frá kennurunum og til hinnar endanlegu ákvörðunar málsins. Ég tel í sjálfu sér ekki neina ástæðu til að rökstyðja það frekar.

Þegar þessi mál voru til meðferðar á síðasta kjörtímabili voru mörg af þeim málum sem hér eru nefnd rædd rækilega. Við 2. umr. málsins var mikil umræða um hlutfall framlaga til heimavistanna. Ég hygg að það hafi tekið þó nokkurn tíma í umræðunni síðast og það liggur fyrir brtt. frá Ragnari Arnalds og fleirum um það mál. Ég ætla því ekki að fara yfir það vegna þess að ég tel að þeim rökum hafi verið ágætlega til skila haldið við 2. umr. málsins. Ég ætla hins vegar að víkja aðeins að 39. gr. 3. málsl. sem mér finnst athyglisverður vegna þess að hann er ekki í samræmi við þær venjur sem tíðkast í meðferð ríkisfjármuna. Samkvæmt 39. gr. nýsamþykktra laga um fjárreiður ríkisins er afar sérkennilegt að hafa þetta opið með þeim hætti sem hér er gert. Ég er ekki að gera kröfu um að menn breyti þessu á þessu stigi, en ég vil kvitta fyrir það að ég hef tekið eftir þessari grein og það er ánægjulegt að hafa að baki mér einmitt varaformann fjárln. þegar þetta er rakið. Hér stendur:

,,Heimilt er skólanefnd, ef þörf krefur, að millifæra fé af rekstrarlið fjárlaga til launaliðar og af launalið til rekstrarliðar.``

Þau ár sem ég hef lesið ríkisreikninga sem eru orðin nokkur, ein fimm, hefur það verið grundvallaratriði að menn gengju þannig frá fjárlögum að tilteknir fjármunir færu í rekstur og tilteknir fjármunir í laun og það væri alveg skýrt við hvað menn ættu. Ég þekki það mjög vel, m.a. frá minni menntamálaráðherratíð, að margir skólameistarar voru óánægðir með þetta fyrirkomulag. Þeir töldu að það væri óeðlilegt að þeir gætu ekki ákveðið að flytja þarna til fjármuni eftir því sem þeir teldu nauðsynlegt vegna rekstrar síns skóla. Ég skil viðhorf þeirra, en ég tel hins vegar að skólarnir eigi í þessu tilviki að hlíta sömu reglum og settar eru öllum forstöðumönnum ríkisstofnana nema menn séu vísvitandi að taka ákvörðun um allt aðra meðferð rekstrar- og launafjármuna í framhaldsskólum heldur en gerist í öðrum ríkisstofnunum. Ef menn eru vísvitandi að taka ákvörðun um það er það athyglisvert. En ég vil kvitta fyrir það, hæstv. forseti, að ég hef tekið eftir því.

Ég hef mælt fyrir þessum breytingartillögum, herra forseti, sem ég flyt á sérstöku þingskjali.