Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 21:49:03 (6680)

1996-05-28 21:49:03# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[21:49]

Ásta B. Þorsteinsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég finn mig knúna til að koma hér og veita andsvar vegna ummæla formanns menntmn., Sigríðar Önnu Þórðardóttur, hv. 3. þm. Reykn. Hún gerði að umtalsefni ummæli mín fyrr í kvöld um réttindi fatlaðra nemenda til náms í framhaldsskóla og tel ég að töluverðs misskilnings gæti í máli hennar. Hún hefur e.t.v. ekki skilið þær tillögur sem hér var mælt fyrir á þann veg sem ætlun okkar var.

Það er rétt að fatlaðir nemendur eiga rétt á inngöngu í framhaldsskóla samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og framhaldsskólalögum í dag. En það sem við viljum vekja athygli á hér er að síðari málsgrein 19. gr. er þannig orðuð að verði henni beitt mun hún frekar stuðla að aðgreiningu fatlaðra nemenda innan framhaldsskólans en þeirri samskipan sem við væntum okkur af þessu framhaldsskólafrv. og framkvæmd laganna þegar þau verða að veruleika. Við bendum á að fatlaðir eru jafnfjölbreytilegur hópur og aðrir nemendur. Þeirra þarfir, væntingar, geta og óskir eru jafnfjölbreytilegar og þeir eru margir. Því vörum við við því að það skuli stofnað til sérstakra afmarkaðra deilda innan framhaldsskólans fyrir ákveðna hópa því svo sannarlega passa þeir ekki allir í sama rammann sem þannig væri verið að skipa þeim inn í. Þess vegna vildi ég að formaður menntmn. íhugaði enn á ný þær tillögur sem hér eru settar fram því þær eru í fullu samræmi við stefnur og strauma í kringum okkur í umheiminum. Þær eru í samræmi við yfirlýsingar á borð við Salamanca-yfirlýsingu frá UNICEF, þær eru í fullu samræmi við grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra þar sem allt kapp er lagt á að samskipa fötluðum meðal ófatlaðra í stað þess að aðgreina þá sérstaklega frá heildinni í sérafmörkuðum básum. Svo mörg voru þau orð.

Ég skal viðurkenna það hér að lokum, herra forseti, að vissulega er framfaraspor í þessu frv. miðað við fyrri lög þar sem er horfið frá sérskólahugmyndum fyrir fatlaða á framhaldsskólastigi. En ég tel að árið 1996 gætum við stigið frekari framfaraspor en við gerum hér.