Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:00:34 (6689)

1996-05-28 23:00:34# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:00]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir ræðu hans. Mér fannst hún staðfesta það mjög vel að það er óþarfi að vera að taka þetta mál í gegnum þingið með þeim hætti sem hér er ætlunin að gera.

Í fyrsta lagi er ljóst að á grundvelli gildandi laga er hægt að efna til þess samstarfs við atvinnulífið sem hann talaði um, t.d. á grundvelli þeirrar lagabreytingar sem gerð var á síðasta kjörtímabili undir forustu þáv. menntmrh. varðandi prentnámið sérstaklega.

Í annan stað held ég að það sé hægt að koma því við að ákveða að skólar hafi sérstök verkefni, eins og hæstv. ráðherra kom hér að, m.a. þessir kjarnaskólar. Vandinn þar hefur alltaf verið sá að ráðherrarnir hafa yfirleitt verið feimnir við að taka ákvarðanir um verkaskiptingu skólanna. Það endaði með því t.d. um skeið að það voru allt í einu stofnaðir tveir framhaldsskólar í Suður-Þingeyjarsýslu með fullri virðingu fyrir þeim. En það var ekki mikil verkaskiptahugsun á bak við þá niðurstöðu þegar hún varð til á sínum tíma. Það hefur verið vandinn að í menntmrn. hafa menn ekki þorað að raða hlutum í forgangsröð og það er hægt að gera á grundvelli gildandi laga. Vandinn er ekki sá að svo og svo margir vilji fara í lögfræði og svo og svo margir í læknisfræði. Vandinn er sá að svo og svo margir fara ekki í neitt, það er aðalvandinn á Íslandi. Og því miður er ekkert í þessu frv. sem tekur á því máli, eins og ég hef reyndar margoft sagt.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem hann sagði varðandi 3. gr. sem mér fannst merkilegt. Það leiðir til þess að ég íhuga hvort ég dreg til baka tillögu mína nr. 8. En ég segi hins vegar að gildistökugreinin í frv. er náttúrlega alveg með ólíkindum og hún er sjálf staðfesting á því að frv. er óþarft. Hér stendur, með leyfi forseta: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1996 og skulu komin að fullu til framkvæmda í upphafi skólaársins 2000--2001.`` Ég man ekki til þess að menn hafi samþykkt gildistökuákvæði með teygju eins og hér er gerð tillaga um.