Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:07:43 (6693)

1996-05-28 23:07:43# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:07]

Ásta B. Þorsteinsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans ítarlegu svör við umræðunni um framhaldsskólafrv. Ég þakka honum enn fremur fyrir það að minna mig á þá sameiginlegu aðdáun sem við greinilega höfum á Menntaskólanum við Hamrahlíð. Ég get fullvissað hann um að ég hef fylgst þar vel með starfi og það sem kannski fær mig til þess að koma upp með andsvar er einmitt sú staðreynd að það hafa verið geysilega miklir og skemmtilegir vaxtarbroddar í framhaldsskólunum sem hafa fengið að þróast án þess að vera settir í bása eins og ég tel að hér sé verið að gera með stofnun sérstakra deilda eða heimildarákvæðum um stofnun sérstakra deilda við framhaldsskólana. Það er einmitt verið að þjóna geysilega mörgum og fjölbreyttum hópum fatlaðra nemenda í framhaldsskólunum í dag. Ég nefni Menntaskólann við Hamrahlíð og Iðnskólann í Reykjavík. Þar hefur ekki verið farið út í það að stofna sérdeildir fyrir þessa hópa. Því tel ég að þetta orðalag sem hér er notað í 19. gr. sé í raun skref til baka og endurspegli ekki þann raunveruleika sem framhaldsskólinn hefur þó verið að þróa fram að þessu.

Það er ekki við hæfi að ég leiðrétti hæstv. ráðherra en ég get ekki á mér setið. Það er rétt að Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur verið tilnefndur til verðlauna hjá Evrópusambandinu, í Heliosverkefni Evrópusambandsins. Verðlaunin hafa hins vegar ekki verið ákveðin og verða ekki ákveðin fyrr en 3. desember nk. Það kann að vera að þetta hafi ekki komist nægilega vel til skila til hæstv. ráðherra. En ég skora enn og aftur á hæstv. ráðherra og formann menntmn. að endurskoða viðhorf sín til skilgreiningarhugtaka því að þau skipta meginmáli þegar rætt er um minnihlutahópa.