Grunnskóli

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:20:35 (6697)

1996-05-28 23:20:35# 120. lþ. 150.12 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, Frsm. SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:20]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tilefni af orðum hv. síðasta ræðumanns tek ég sérstaklega fram að það hefur aldrei komið til greina að með þessu frv. væri verið að búa til þriðja stjórnsýslustigið. Það er alveg ljóst að enginn vill það, a.m.k. hvorki stjórnarmeirihlutinn né Samband íslenskra sveitarfélaga. Ég tel að það sé rangtúlkun að túlka það með þessum hætti. Það hefur heldur aldrei staðið til að starfsmenn sérskóla yrðu starfsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hins vegar er verið að gera ráð fyrir því í 1. gr. þessa frv. að Samband íslenskra sveitarfélaga geti komið að því að leysa ákveðin vandamál sem koma upp við flutning grunnskólans. Það er ekkert skrýtið þó einhver slík mál komi upp þegar um svo viðkvæman og viðamikinn málaflokk er að ræða eins og grunnskólinn er. Ég tel að það hafi tekist ákaflega vel að leysa þau vandamál sem upp hafa komið fram til þessa. Hér er einmitt verið að taka á því. Það er einfaldlega verið að tryggja tilvist sérskólanna með úrræði sem verður endurskoðað innan ársins 1999. Það er bráðabirgðalausn að Reykjavíkurborg komi að rekstri skólanna. Það er síðan hugsanlegt að sú lausn verði varanleg en það getur líka vel verið að menn leysi það á einhvern annan hátt.