Grunnskóli

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:44:53 (6703)

1996-05-28 23:44:53# 120. lþ. 150.12 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:44]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Eitt það fyrsta sem var gert í þeirri vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum mánuðum við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna var að fjalla um málefni sérskólanna. Það hefur verið samin reglugerð og hún hefur verið send til umsagnar. Það liggur nákvæmlega fyrir hvernig á að taka á þessum málum í þeirri reglugerð á grundvelli grunnskólalaganna. Þessi reglugerð var með því fyrsta sem lá fyrir til þess að það væri unnt að taka afstöðu til kostnaðarþáttarins nákvæmlega á grundvelli reglna sem menn væru sáttir við. Það verk var unnið, það liggur fyrir. Þar er mælt fyrir um það hvernig farið skuli með sérskólana og þá sem njóta þjónustu þeirra og hvernig staðið skuli að kostnaði vegna sérkennslunnar. Sú reglugerð er ítarleg. Þar er einnig fjallað um kostnaðarþáttinn. Á grundvelli hennar voru teknar ákvarðanir um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og það er ómótmælanlegt að það voru ákveðnar aukafjárveitingar til þess að geta aukið sérkennsluna. Hér er einvörðungu um það að ræða að fjalla um það að veita Sambandi íslenskra sveitarfélaga að hafa frumkvæði ef það koma upp vandræði vegna flutningsins eins og nákvæmlega er greint frá í greinargerð með frv. Ef hv. þm. sér það er ekki með nokkrum móti unnt að komast að þeirri niðurstöðu að það sem hér er verið að fjalla um geti brotið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins um jafnræði. Þvert á móti er verið að tryggja að þeir sem minna mega sín hafi betri stöðu en aðrir þegar þetta varnaglaákvæði er sett í lögin.