Grunnskóli

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:47:35 (6705)

1996-05-28 23:47:35# 120. lþ. 150.12 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:47]

Svavar Gestsson:

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðurnar mikið en get ekki látið hjá líða að láta það koma fram að mér finnst að þetta sé pínulítil ólánslausn sem við erum hér með og dálítið ósannfærandi tök sem við erum með á málinu þó ég ætli í sjálfu sér ekki að fara að greiða atkvæði á móti þessu frv. eftir þær breytingar sem hv. menntmn. gerir tillögur um sem ég held að séu til bóta.

Það sem virðist vaka fyrir mönnum er það að Reykjavíkurborg hafi e.t.v. með þessi mál að gera og yrði eins konar miðstöð þeirra lausna sem um yrði að ræða í sambandi við þessa sérskóla. Í sjálfu sér getur það verið ágæt hugmynd að öðru leyti en því að ég held að það verði mjög vandasamt fyrir Reykjavíkurborg gagnvart öðrum sveitarfélögum. Enda þótt Reykjavíkurborg sé í Sambandi íslenskra sveitarfélaga en ekki utan sambands sveitarfélaganna eins og höfuðborgir eru sums staðar, t.d. í Danmörku þá getur sambýli Reykjavíkur við önnur sveitafélög í framkvæmd málaflokks eins og þessa orðið mjög erfið. Þess vegna spyr ég fyrst að því af hverju eru sérskólarnir ekki einfaldlega áfram hjá ríkinu með sérstökum almennum samningum við sveitarfélögin. Ég hefði talið að það væri kannski miklu eðlilegra mál þó ég viðurkenni að það er líka flókið vegna þess að ætlunin er að sveitarfélögin yfirtaki rekstur grunnskólans. Það er hætt við því að það yrði um að ræða þrýsting af hálfu sveitarfélaganna á ríkið að taka við nemendum inn á sérskólana, kannski umfram það sem ella væri ef tveir mismunandi aðilar bera kostnaðinn. Það er alltaf ólán að hafa það þannig inni á sama verkefnasviðinu. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta ólánlegt þó ég skilji að málið er ekki einfalt. Hins vegar ætla ég að bera fram tvær spurningar. Það er í fyrsta lagi þetta varðandi forræði málsins. Nú er það þannig að sveitarfélögin hafa með að gera starfsemi grunnskólans samkvæmt grunnskólalögum eins og þau verða þegar flutningurinn hefur átt sér stað. Ég hefði viljað sjá að það kæmi fram í frv. ef að lögum verður að menntmrn. fylgist sérstaklega með framkvæmd þeirra ákvæða grunnskólalaga sem snerta íbúa fleiri en eins sveitarfélags þannig að ekki sé hægt að halda þannig á hlutunum að menntmrh. geti eftir nokkur ár komið upp og sagt að sér komi þetta ekki við heldur Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég ber út af fyrir sig sæmilegt traust til Sambands íslenskra sveitarfélaga en ég ber meira traust til menntmrn. þegar um er að ræða mál eins og sérskólana, a.m.k. til að byrja með á þessum ferli sem verið er að leggja af stað með varðandi rekstrarform sérskólanna og grunnskólanna yfirleitt. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh.: Verður það þannig að menntmrn. fylgist áfram með framkvæmd sérkennslunnar og starfsemi sérskólanna? Þetta vil ég spyrja um í fyrsta lagi.

Í öðru lagi þetta: Hvað þýðir þetta ,,endurskoða eigi síðar en 1. jan. 1999``? Afskaplega leiðast mér mikið svona ákvæði í lögum. Þetta segir yfirleitt ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta er í breytingartillögu nefndarinnar. Hvað þýðir þetta? Hvernig mundi ráðherrann líta á þetta ef hann væri í stólnum þegar dagsetningin tæki gildi? Ég mundi líta þannig á að þá ætti ráðherrann, hver sem hann er, að hafa lagt fyrir þingið frv. um nýja skipan þessara mála í tæka tíð þannig að það gæti tekið gildi frá og með 1. jan. 1999. Eða hvað þýðir þetta? Ég bið hæstv. ráðherra að svara því.

Síðan eru auðvitað önnur mikilvæg ákvæði í þessu frv. sem ég tel út af fyrir sig ástæðu til að vekja athygli á við 2. umr. þó þau hafi ekkert verið rædd. 5. gr., þó þessu sé seinkað þarna um dálítinn tíma vegna flutningsins, sem ber að harma, þá er það alveg stórmerkt sem er verið að gera. Það eru ekki nema fimm ár síðan við komum inn með frv. til grunnskólalaga þar sem gert var ráð fyrir áfangagildistöku laga um grunnskóla og einsetning tæki gildi í áföngum. Það þóttu hátimbraðir loftkastalar og fjarstæða. Ég man eftir löngum ræðum úr þessum ræðustól um það hvað þetta væri óraunsætt kjaftæði eins og menn settu það þá fram. Nú er það sem betur fer liðin tíð þannig að það er talinn viðráðanlegur veruleiki í fyrirsjáanlegri framtíð að skólinn verði einsetinn. Það er fagnaðarefni.