Grunnskóli

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:53:11 (6706)

1996-05-28 23:53:11# 120. lþ. 150.12 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:53]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég stæði frammi fyrir því fyrir 1. jan. 1999 myndi ég leggja sama skilning í þetta og hv. þm. að það yrði að endurskoða þetta og leggja fram frv., annaðhvort um niðurfellingu á þessu ákvæði í lögunum eða framlengingu eða aðra skipan. Varðandi hitt málið sem hann spurði um er varðar eftirlitsskyldu menntmrn. þá byggist hún að sjálfsögðu á grunnskólalögunum. Þar eru ákvæði um eftirlit og reglugerðir sem ráðuneytið á að setja og skyldur þess í því sambandi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ráðuneytið mun hafa náið auga með því sem gerist varðandi sérskóla. Eins og málum er háttað er ég einnig sannfærður um að menn munu leita til ráðuneytisins í því efni og leita ráða þar og þar verða sérfræðingar í málefnum sérskóla á framhaldsskólastiginu og það verður að tengja það saman við það sem er að gerast á grunnskólastiginu eins og augljóst er. Það er kosturinn við þessa lagasetningu og framhaldsskólalagasetninguna að það er verið að fella þessi tvö skólastig saman og er mikilvæg stefnumörkun fólgin í því. En ráðuneytið verður einnig að gæta sín. Ég hef lagt á það áherslu að það má ekki ganga of langt í eftirlit sínu þannig að ekki verði farið að gera þá kröfur til þess eða ríkisvaldsins um sérstakan fjárstuðning vegna slíkra krafna þannig að þar eru mörk sem menn verða að gæta sín á. En að sjálfsögðu mun ráðuneytið fylgjast efnislega með því sem sérskólana varðar eins og annað.